Stök frétt

Vegagerðin hefur nú lokað flestum hálendisvegum vegna aurbleytu. Á vorin, meðan snjóa er að leysa og frost er að fara úr jörðu er mikil hætta á skemmdum á vegum og gróðri. Þetta stafar helst af ótímabærri umferð og því að ekið er utan vega til að krækja fyrir skafla og polla eða ekið á ótraustri snjóþekju. Einnig er hætta á skemmdum á gróðri í og við áningarstaði og gönguleiðir þegar byrjar að hlána þar sem jarðvegur verður vatnsósa og gróður þolir engan átroðning. Jarðvegur er gljúpur og hvert fótspor getur skilið eftir sig djúpt far og jafnvel varanlegar skemmdir. Ferðamannastaðir á hálendinu eru sérstaklega viðkvæmir á þessum árstíma og því mjög mikilvægt að þau svæði fái frið fyrir allri umferð á meðan frost er að fara úr jörðu, jarðvegur að þorna og gróður að vakna til lífsins. Akstur inn á lokað svæði er óheimill samkvæmt lögum og varðar sektum.

Vegagerðin, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður eru í samstarfi um að meta ástand vega og náttúruverndarsvæða að vori. Stofnanirnar þrjár hafa gert með sér minnisblað þess efnis þar sem fjallað er um tilhögun undanþáguveitingar á akstri á hálendisvegum þar sem ferðaþjónustuaðilar geta fengið undanþágur þau ár sem ekki er hægt að opna vegi og náttúruverndarsvæði fyrr en í byrjun sumars. Hér má sjá minnisblaðið. Á vef Vegagerðarinnar eru upplýsingar um lokanir og opnun fjallvega og hvenær undanþáguveitingar á akstri inn á lokuð svæði koma til greina og má nálgast þær upplýsingar hér.

Það er mikilvægt að allir virði þessar lokanir og að við stöndum saman vörð um verndun íslenskrar náttúru.