Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Nú hefur umhverfis- og auðlindaráðuneyti auglýst hreindýraveiðikvóta ársins 2019 en auglýsingin er birt með fyrirvara um veiðitíma hreindýra. Ráðuneytið er með í skoðun áhrif kúaveiða á kálfa. Niðurstöður þeirrar athugunar geta mögulega haft áhrif á veiðitíma hreindýra. Sjá nánar hér. 

Umhverfisstofnun annast sölu hreindýraveiðileyfa. Umsóknarfrestur er til og með 4. mars en umsóknum skal skilað inn í Þjónustugátt- Mínar síður á vef Umverfisstofnunar. Heimilt er að veiða allt að 1451 hreindýr árið 2019, 1043 kýr og 408 tarfa. Þessi fjöldi er með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum. Samkvæmt gjaldskrá nr. 309/2018  er veiðigjaldið kr. 150.000 fyrir tarf og 86.000 fyrir kú og greiðist eigi síðar en 15.apríl.

Breytingar á úthlutunarreglum

Umhverfisstofnun hefur gert breytingar á úthlutunarreglum þannig að ef til kemur að úthluta þurfi af varavali er þeim úthlutað í lækkandi röð slembitölunnar sem umsókn fær í útdrætti, hæsta slembitala fær því fyrsta dýr í varaumsókn.  Þetta er í öfugri röð við aðalval en í aðalvali er umsóknum raðað í hækkandi röð þannig að lægsta slembitala fær fyrsta dýr. Þetta þýðir að í aðalvali er gott að fá lága slembitölu en í varavali er gott að vera með háa slembitölu. Breyting þessi er gerð af fenginni reynslu við úthlutun varadýra. Þegar Umhverfisstofnun hefur verið að úthluta dýrum af varavali hefur í einhverjum tilfellum verið komið að mönnum í aðalvali á sama tíma. Þetta hefur flækt málin og tafið fyrir úthlutunum af varavali. Úthlutunarreglur má kynna sér hér.

Veiðiheimildir árið 2019 skiptast sem hér segir eftir veiðisvæðum og kyni dýra:

                                    Kýr                 Tarfar            Alls

Veiðisvæði 1              120                  124                  244

Veiðisvæði 2              384                  69                    453

Veiðisvæði 3              65                    15                    80

Veiðisvæði 4              35                    24                    59

Veiðisvæði 5              64                    48                    112

Veiðisvæði 6              75                    68                    143

Veiðisvæði 7              152                  26                    178

Veiðisvæði 8              30                    18                    48

Veiðisvæði 8 nóv       34                                           34

Veiðisvæði 9              20                    16                    36

Veiðisvæði 9 nóv       64                                           64

Samtals                      1043                408                  1451