Stök frétt

Nú eru áramótin að ganga í garð og samkvæmt spám Veðurstofu Íslands verður hæglætis veður um miðnætti en það er sá tími sem flestir eru utandyra að skjóta upp flugeldum. Margir muna eflaust eftir síðustu áramótum þegar slíkt magn af svifryki safnaðist upp yfir höfuðborginni að erfitt var orðið að sjá litadýrðina. Um nóttina var úrkomulaust og veðurstilla (svipað veður og spáð er í ár) sem leiddi til þess að allt svifrykið sem myndaðist við sprengingarnar náði að svífa lengi um andrúmsloftið.

Styrkur svifryks um áramót ræðst mikið af veðri. Veðurpár eru enn ekki alveg samhljóða en ef vindur er undir 2 m/s má búast við mjög mikilli mengun. En skothegðun almennings ræður líka miklu um það hvernig styrkur mengunar þróast. Á meðfylgjandi línuriti má sjá hvernig styrkur svifryks var að breytast á mælistöðinni við Dalsmára í Kópavogi frá hádegi á gamlársdag til hádegis á nýársdag áramótin 2017-2018. Styrkurinn fer að aukast smávegis um kl 16 en lækkar svo aftur um það leyti sem flestir eru að borða kvöldmat. Eftir matinn fer fólk aftur að skjóta upp flugeldum og um kl 20:30 er kveikt í flestum brennum og á þeim tíma er líka skotið upp meira af flugeldum. Mengunarstyrkurinn eykst fram að því að áramótaskaupið byrjar en þá snarlækkar styrkurinn. Um leið og skaupið klárast fer fólk aftur að skjóta upp og hæsti styrkurinn er að mælast skömmu eftir miðnætti.

Svifryk er heilsuspillandi og getur ýtt undir versnandi einkenni ýmissa sjúkdóma. Aldraðir og fólk með öndunarfærasjúkdóma finnur verulega fyrir mikilli loftmengun. Börn eru líka sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Því má segja að stór hluti Íslendinga séu mjög viðkvæmir fyrir þessari mengun og upplifa neikvæð einkenni vegna hennar. Það er vert að hafa í huga þegar við skjótum upp flugeldum. Vöndum valið á flugeldum, kaupum færri og njótum betur.

Njótum áramótanna, en munum að gæði trompa magn.

Öndum léttar um áramótin.

Mynd: Styrkur svifryks í míkrógrömmum á rúmmetra í mælistöðinni við Dalsmára í Kópavogi áramótin 2017-2018. Þetta mynstur sést oft um áramót en hæð toppa ræðst af veðri hverju sinni og því hve miklu er skotið upp.