Stök frétt

Aukinn styrkur svifryks hefur undanfarið mælst á loftgæðamælistöð Akureyrarbæjar og Umhverfisstofnunar sem staðsett er við Strandgötu á móts við Hof.

Heilsuverndarmörk svifryks eru miðuð við meðaltal hvers sólarhrings þar sem mörk eru 50 µg/m3 að meðaltali í heilan sólarhring. Sólarhringsmeðaltal s.l. þriðjudag, 20. nóvember,  var 119 µg/m3 og var dagurinn því vel yfir heilsuverndarmörkum. Sólarhringsmeðaltal svifryks má ekki fara yfir mörkin oftar en 35 daga á ári. Þetta var 15. dagurinn sem mælist yfir mörkum síðan stöðin var sett upp við Strandgötu um miðan febrúar á þessi ári. Fram að því hafði stöðin verið staðsett við Tryggvabraut. Reglur um heilsuverndarmörkin taka hins vegar ekki á því hversu mikið er farið yfir mörkin. Ljóst er að háir svifrykstoppar sem fara langt yfir mörkin hafa meiri áhrif á heilsu fólks en toppar sem fara rétt rúmlega yfir mörkin. Óvenju há gildi hafa verið að mælast frá miðjum október. Hæsta einstaka klukkutímameðaltalið sem hefur mælst við Strandgötu það sem ef er þessum vetri er 455 µg/m3. Ekki eru nein heilsuverndarmörk í gildi fyrir hvern klukkutíma, aðeins fyrir meðaltal sólarhringsins.

Svifryksmengun er venjulega mest í nágrenni við miklar umferðargötur en búast má við minni mengun inn í íbúðahverfum fjær mestu umferðargötunum. Svifryksmengun eykst mikið þegar vegyfirborð þornar að vetri til og götur eru rykugar eftir hálkuvarnir með malarefnum og gatnaslit af völdum nagladekkja. Sveiflur innan hvers dags fylgja álagstímum í umferðinni.

Þegar svona er ástatt getur fólk sem er viðkvæmt í öndunarfærum fundið fyrir óþægindum. Í þann hóp falla öll ung börn og hluti aldraðra. Einnig er fólk með hjarta- og lungnasjúkdóma viðkvæmara fyrir svifryki og fólk með astma getur fundið fyrir auknum einkennum.

Ekki er hægt að mæla með að fólk sé í mikilli líkamlegri áreynslu í nágrenni við miklar umferðargötur þegar styrkur svifryks er svo hár. Mælt er með að hlauparar velji sér leið fjær mestu umferðargötunum.

Mikil umferð á Akureyri er meginorsök svifryksmengunarinnar í bænum. Er þörf á að nota heimilisbílinn alltaf til allra erinda? Frítt er í strætó á Akureyri og er fólk hvatt til að kynna sér leiðakerfið. Í litlum bæ búa margir í göngu eða hjólafæri við sinn vinnustað eða skóla.

Ef veðurspá næstu daga gengur eftir gæti áfram orðið hár styrkur svifryks í bænum. Full ástæða er til að vara við hugsanlegum áhrifum svifryksins á heilsu fólks. Sú spurning er áleitin hvort taka ætti upp þá stefnu að gefa út viðvaranir til íbúa á Akureyri þegar mikil svifryksmengun mælist, líkt og gert er í Reykjavík.

Upplýsingar um loftmengun á Akureyri má sjá á slóðinni www.loftgæði.is

Gatnarykið er vandamál

Það er ekkert nýtt að mikið svifryk mælist á Akureyri. Fyrstu mælingar á svifryki á Akureyri voru gerðar veturinn 2005 og voru hluti af nemendaverkefni tveggja Akureyringa. Mælingarnar fóru fram við gatnamót Glerárgötu og Tryggvabrautar og var mælirinn staðsettur sunnan Tryggvabrautar beint á móti Olís bensínstöðinni.

Þessar fyrstu mælingar sýndu að mikil svifryksmengun var til staðar á Akureyri. Á því 75 daga tímabili sem mælingar stóðu yfir var mengun yfir mörkum í 35 daga. Eftir að þessu nemendaverkefni lauk var ákveðið að hefja reglubundnar mælingar á svifryki á Akureyri. Þær mælingar sýndu mikla svifryksmengun. Fyrsta heila mæliárið var 2006 og fór svifryksmengun yfir heilsuverndarmörk 50 daga það ár.

Ljóst var að meginupptök þessarar svifryksmengunar var gatnaryk. Árið 2008 setti umhverfisnefnd Akureyrarbæjar fram viðbragðsáætlun þar sem m.a.  var rætt um nauðsyn þess að auka þrif á götum og  að lágmarka notkun malarefna til hálkuvarna. Árið áður hafði um 400 tonnum af malarefnum verið dreift á götur bæjarins. Þær aðgerðir virtust skila árangri, því árin á eftir mældist minna ryk. Þó er rétt að hafa í huga að loftmengun er mjög nátengd veðurfari þannig að erfitt er milli ára að sjá nákvæmlega árangur aðgerða.

Aðgerða þörf

Það er á ábyrgð Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra að vinna aðgerðaráætlun til að draga úr loftmengun. Fulltrúar Umhverfisstofnunar, Akureyrarbæjar og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hafa fundað undanfarið og er unnið að aðgerðaráætlun ásamt Vegagerðinni. Stofnaður hefur verið vinnuhópur og skipa hann fulltrúar frá Akureyrarbæ, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Vegagerðinni. Hópurinn skipuleggur nú aðgerðir til að draga úr svifryksmengun í bænum.

Ljóst er að verklag við hálkuvarnir vegur þungt í orsök svifryks á Akureyri. Veturinn 2017-2018 var dreift tæplega 1100 tonnum af malarefni á götur bæjarins til hálkuvarna.

 

Akureyrarbær, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Umhverfisstofnun

(myndin er tekin nú í vikunni þegar mikið svifryk lá yfir Akureyri)