Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun, Ráðgjafafyrirtækið Alta og Fjölbrautaskólinn við Ármúla fengu í gær afhenta samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn.

Þetta er í sjöunda skiptið sem samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar er veitt. Dómnefnd byggir val sitt á árangri af aðgerðum sem fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að gera starfsfólki fært að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn og stuðla að notkun vistvænna orkugjafa.

Um Umhverfisstofnun segir á vef Reykjavíkurborgar að hlutverk stofnunarinnar sé að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Dæmi um stuðning stofnunarinnar við vistvæna þróun og aðgerðir eru eftirfarandi:

  • Umhverfisstofnun býður starfsmönnum sínum upp á samgöngusamning og hefur gert um árabil. Um nokkrar tegundir af samgöngusamningum er um að ræða. Boðið er upp á heilsárssamgöngusamning, sumarsamning og samning fyrir þá sem hjóla og ganga á fundi. Stofnunin greiðir árskort fyrir almenningssamgöngur og andvirði þess til starfsfólks sem kýs að ganga eða hjóla til og frá vinnu.
  • Umhverfisvænni samgöngumátar hjá Umhverfisstofnun hafa aukist milli ára. Árið 2017 voru 54% starfsmanna sem hjóluðu, gengu eða notuðu strætó til og frá vinnu. 
  • Á undanförnum árum hefur stofnunin lagt mikla áherslu á góðan fjarfundarbúnað og að starfsmenn nýti sér hann fremur en að fara í ferðalög milli staða. 
  • Umhverfisstofnun er með góða hjólaaðstöðu og fær fyrir það afhenta Gull hjólavottun vinnustaða frá Hjólafærni nú í samgönguvikunni. 
  • Vinna við breytingar á bílastæði fyrir framan hús Umhverfisstofnunar á Suðurlandsbraut er hafin þar sem bæta á aðkomu fyrir fatlaða einstaklinga. Sett verða upp hjólastæði og tvær hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. 

Á myndinni eru Hólmfríður Þorsteinsdóttir og Birgitta Stefánsdóttir, starfsmenn Umhverfisstofnunar, sem veittu viðurkenningunni viðtöku.