Stök frétt

Um 30 manns sóttu opinn kynningarfund á Húsavík í gær sem Umhverfisstofnun boðaði til vegna upplýsinga um kísilver PCC á Bakka. Kynntar voru niðurstöður eftirlits Umhverfisstofnunar og umhverfisvöktunar sem í stuttu máli eru þær að þótt verksmiðjan hafi átt við örðugleika í uppkeyrslu ofna að stríða eru engar vísbendingar um að loftmengun hafi farið yfir mörk um heilsuvernd síðan starfsemi hófst. Ýmsar mælingar fara fram í lofti, jarðvegi og í legi vegna starfseminnar.

Það voru þau Guðbjörg Stella Árnadóttir sem kynnti eftirlit og Einar Halldórsson sem kynnti niðurstöður úr eftirliti með PCC á Bakka sem töluðu á fundinum fyrir hönd Umhverfisstofnunar.

Elma Sif Einarsdóttir frá PCC kynnti niðurstöður umhverfisvöktunar og Erlingur E. Jónasson frá PCC flutti erindi.

Líflegar umræður urðu að loknum framsöguerindum. Meðal þess sem fram kom er að fulltrúar frá Umhverfisstofnun hafa alls fimm sinnum farið í eftirlitsferðir á Bakka og verður nánu eftirliti fram haldið.