Stök frétt

Í sumar bættist ný strönd við kerfisbundna vöktun stranda á Íslandi samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR (samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins). Starfsfólk Biopol hefur tekið að sér OSPAR vöktun á ströndinni Víkur á Skagaströnd fyrir Umhverfisstofnun og fór starfsmaður Umhverfisstofnunar, þann 12. júlí sl. og aðstoðaði þau við fyrstu vöktunina. Á ströndinni var mikið rusl sem kemur frá sjávarútvegi, eins og t.d. netakúlur, olíubrúsar og fiskikassar. Einnig fannst mikið af plastbrotum í ýmsum stærðum (sjá mynd). Ströndin verður vöktuð þrisvar sinnum á ári og verða niðurstöðurnar skráðar inn í gagnagrunn hjá OSPAR.

Víkur verður sjötta ströndin sem er vöktuð á Íslandi samkvæmt aðferðafræði OSPAR, en hinar eru: Surtsey, Bakkavík á Seltjarnanesi, Búðavík á Snæfellsnesi, Rauðisandur og Rekavík bak Höfn á Hornströndum (Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar: https://ust.is/atvinnulif/haf-og-vatn/voktun-stranda/).