Stök frétt

Stefnumótun á sviði umhverfismála er flókið verkefni þar sem oft skapast spenna milli hagkerfa og ávinningi þeim samfara og þeirrar staðreyndar að lífshættir okkar hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir umhverfið og heilbrigði manna. Kerfisbundinn skilningur á tengslum náttúru, efnahagsmála og heilbrigði manna er nauðsynlegur sem leiðarljós í stefnumörkun.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Umhverfisstofnunar Evrópu, sem Hans Bruyninckx, framkvæmdastjóri EEA, ritaði í síðasta mánuði. Þar fjallar framkvæmdastjórinn um að Umhverfisstofnun Evrópu hafi að stefnu sinni að styðja við stefnumótun Evrópuríkja með því að bjóða upp á mikið magn þýðingarmikilla upplýsinga.

Fram kemur að Umhverfisstofnun Evrópu fylgist með helstu umhverfisbreytingum í Evrópu og birti niðurstöður sínar til að styðja við stefnumörkun. Matsgerðir séu allt frá sérsviðagreiningum yfir í kerfisbundnar greiningar og nái yfir fyrri þróun og spár í sumum tilvikum allt fram til 2100.

„Heildarniðurstöðurnar eru skýrar: samanborið við áttunda áratug síðustu aldar búa Evrópubúar við hreinna loft og vatn og umhverfisvænni hagkerfi þar sem endurvinnsla og endurnýjanleg orka fer vaxandi. Þrátt fyrir að verulegu hafi verið áorkað er heildarstaðan áfram ósjálfbær. Vaxandi ásókn í auðlindir, loftslagsbreytingar og uppsöfnun mengunarvalda í náttúrunni eru allt atriði sem grafa undan heilbrigði plánetunnar og velferð okkar.“

Framkvæmdastjórinn segir hægt að útskýra vandamálið með einföldum hætti. Efnahagsstarfsemi hafi fjölbreyttan ávinning í för með sér en losi einnig mengun út í náttúruna og gangi á endurnýjanlegar og óendurnýjanlegar auðlindir. „Þessir mengunarvaldar geta verið skaðlegir lífríkinu, þar á meðal heilbrigði okkar. En betri skoðun leiðir flókin vandamál í ljós, kjarnann í umræðum um umhverfisstefnu í Evrópu. Öllum lausnum fylgir kostnaður sem kemur sumum samfélögum til góða en þvingar önnur til aðlögunar. Til dæmis getur umbreyting í átt að hreinni orkugjöfum dregið úr mengun og styrkt endurnýjanlega orkugeirann en einnig leitt til atvinnumissis í kolanámusamfélögum.“

Mengunarvaldurinn greiðir

Evrópusambandið er með einhverja hæstu umhverfisstaðla í heiminum og tekur á ýmsum flóknum umhverfisvandamálum með yfirgripsmiklum lagagerðum. Meðal þessara lagagerða eru markvissar tilskipanir um loftgæði, meðhöndlun á frárennslisvatni í borgum og náttúruvernd ásamt heildarlögum þvert á geira um loftslag og orku og hringrás í efnahagskerfinu.

„Hjartað í umhverfisstefnum Evrópusambandsins er meginreglan um að mengunarvaldurinn greiði. Meginreglan var formlega innleidd með Rómarsáttmála Evrópusambandsins og er henni hrundið í framkvæmd með margvíslegum hætti, þar á meðal með efnahagslegum hætti með vegatollum fyrir ákveðin ökutæki eða grænum sköttum til að hvetja notendur til að velja græna valkosti.“

Einnig kemur fram að einn stakur loftmengunarvaldur, þ.e. fínt svifryk (PM2.5), valdi ótímabærum dauðsföllum um 400.000 Evrópubúa árlega. „Uppsöfnun mengunarvalda í náttúrunni, þar á meðal plastefna í heimshöfunum, ofnýting auðlinda eða áþreifanlegar breytingar á kjörlendi veldur verulegu tjóni og breytingum sem hafa áhrif á allt vistkerfið. Sumar af þessum breytingum eru óafturkræfar. Skýrt hefur verið frá því að öfgar í veðri og loftslagi í Evrópu hafi valdið efnahagslegu tapi upp á meira en 450 milljarða evra á tímabilinu 1980–2016, 40% tapsins var af völdum flóða, 25% af völdum storma. Rétt yfir þriðjungur tjónsins var greiddur af tryggingum.

Sjá  allt fréttabréfið hér.

(Mynd: Wikipedia)