Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Munck Íslandi ehf. sem veitir heimild til að reka malbikunarstöð að Álhellu 18, Hafnarfirði. Heimilt er að framleiða allt að 160 t/klst. af malbiki.

Starfsleyfistillagan var auglýst opinberlega á tímabilinu 13. apríl til 11. maí 2018 og var fólki gefinn kostur á að koma með skriflegar athugasemdir við tillöguna. 28 umsagnir bárust. Vegna þess hve umsagnir voru margar var ákveðið að halda kynningarfund í Hafnarborg kl. 16:30 fimmtudaginn 24. maí 2018. Tilkynnt var að tekið yrði á móti athugasemdum sem kynnu að berast vegna fundarins til sunnudagsins 27. maí 2018 en engar athugasemdir bárust. Breytingar voru gerðar á starfsleyfinu frá auglýstri útgáfu og var við þá vinnu litið til umsagnanna. Breytt var ýmsum ákvæðum um heftingu ryks, fráveitumál og eftirlit. Ítarleg greinargerð fylgir starfsleyfinu sem fylgiskjal þar sem nánar er gerð grein fyrir málinu.

Starfsleyfið er gefið út í samræmi við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Auglýsing þessi er birt á fréttasvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálki fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem stofnunin gefur út.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 

Sjá starfsleyfið hér