Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Alþjóðlegur dagur hafsins er í dag en hann er haldinn 8. júní ár hvert. Að þessu sinni er athyglinni beint að plastmengun í sjó.

Haf þekur um tvo þriðju hluta jarðar og er því afar mikilvægt öllu lífi á jörðinni. Í höfunum myndast mikið af því súrefni sem við öndum að okkur. Höfin tempra meðal annars loftslag og eru mikilvæg uppspretta fæðu fyrir mannkynið. Höfin eru einnig efnahagslega mikilvæg fyrir lönd þar sem atvinnuvegir byggja á ferðamennsku og fiskveiðum og annarri nýtingu sjávarauðlinda auk þess sem þau eru mikilvæg fyrir alþjóðlega flutninga. Höfin eru hins vegar undir miklu álagi, þ. á m. vegna ýmiss konar rusls og mengunarefna sem berast til sjávar og ógna lífríki.

Skaðleg áhrif lúta einnig að plasti í hafi sem ekki eyðist heldur brotnar niður í smærri einingar, auk þess sem skaðleg efni geta loðað við plastagnirnar og þannig dreifst um hafið. Dýr geta flækst í plastúrgangi, s.s. í netum eða plastpokum, en þau taka einnig plast í misgripum fyrir fæðu. Vegna þessa er mikilvægt að draga úr allri losun mengunarefna og koma í veg fyrir að rusl berist til sjávar. Þar verða allir að taka höndum saman.

Á heimasíðu Dags hafsins segir:

80% af allri mengun í höfum kemur af landi.

Átta milljón tonn af plasti enda árlega í hafinu með skaðlegum afleiðingum fyrir fiskveiðar, náttúru og ferðaþjónustu.

Plastmengun í hafi veldur einni milljón fugla fjörtjóni árlega.

100.000 sjávarspendýr drepast árlega af völdum plasts í höfum.

Þess má geta að Umhverfisstofnun beindi athyglinni að plastmengun og stóð fyrir herferð gegn einnota plasti á Hátíð hafsins sem fram fór um síðustu helgi.