Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Síðastliðinn mánudag afhenti Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, ræstiþjónustunni Sólar endurnýjað leyfi Svansins. Sólar er þriðja ræstingafyrirtækið á Íslandi sem klárar endurvottun Svansins eftir hert viðmið.

Sólar er eitt stærsta ræstingafyrirtæki landsins með um 300 starfsmenn og hefur verið með Svansvottun síðan 2007. Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að gagnaskil hafi ávallt verið til fyrirmyndar. Endurvottunargögn fyrirtækisins séu einstaklega vel unnin og aðgengileg. „Fyrirtækið er með metnaðarfullt innra kerfi þar sem haldið er utan um verkferla, umsagnir og samskipti.“

Til að hljóta vottun Svansins þarf ræstiþjónusta að hafa lágmarkað efnanotkun, lágmarkað eldsneytisnotkun í rekstri, hámarkað hlutfall umhverfisvottaðra efna og hætt notkun á efnum sem geta verið skaðleg umhverfinu og heilsu manna svo eitthvað sé nefnt. Einnig er lögð áhersla á fræðslu og leiðbeiningar til starfsfólks og að fyrirtækið sé með ferill til að tryggja gæði þjónustunnar.

Umhverfisstofnun óskar Sólar til hamingju með áfangann og þakkar samstarfið.

Á myndinni taka Þorsteinn Ágústsson framkvæmdastjóri og Ingunn Margrét Ágústsdóttir deildarstjóri við leyfinu úr hendi Kristínar Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar.