Árið 2016 var losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi,[1] 4.669 kílótonn af CO2-ígildum, sem er aukning um rúmlega 28% frá árinu 1990 (3.634 kt CO2-íg.), en samdráttur um tæplega 2% frá árinu 2015 (4.749 kt CO2-íg.). Losun Íslands árið 2016 með landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt jókst um 8,5%, frá 1990 til 2016 (úr 13.727 í 14.893 kt.CO2-íg.).
Meginástæður samdráttar í losun milli 2015 og 2016, án landnotkunar, eru minni losun frá fiskiskipum, álframleiðslu og kælimiðlum. Þá hefur niðurdæling CO2 frá jarðvarmavirkjunum einnig leitt til minni losunar út í andrúmsloftið. Þrátt fyrir að heildarlosunin hafi dregist saman milli ára, hefur losun aukist verulega frá ákveðnum uppsprettum, eins og vélum og tækjum (12%) og vegasamgöngum (9%). Stærstu uppsprettur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2016, án landnotkunar, voru málmiðnaður (38%), vegasamgöngur (19,5%), fiskiskip (11%), iðragerjun jórturdýra (6,6%) og urðun úrgangs(4,6%).
Samkvæmt tvíhliðasamningi um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við Loftslagssamninginn er losun frá viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (Emission Trading System - ETS) ekki hluti af þeirri losun sem talin er til skuldbindinga Íslands. Árið 2016 féllu 38% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá staðbundnum iðnaði undir gildissvið viðskiptakerfis ESB, þ.m.t. öll stóriðja. Losun Íslands sem fellur undir sameiginlegar efndir hefur dregist saman um 7,4% frá árinu 2005, sem er viðmiðunarár í samningum Íslands og ESB.
Breyting 1990-2016 |
Breyting 2005-2016 |
Breyting 2015-2016 |
|
Viðskiptakerfi ESB (staðbundinn iðnaður) |
98,7% |
108,1% |
-2,0% |
Losun er fellur undir beinar skuldbindingar Íslands |
5,5% |
-7,4% |
-1,5% |
Heildarlosun |
28,5% |
17,4% |
-1,7% |
Í ágúst 2017 var losunarbókhald Íslands tekið út af úttektarteymi á vegum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem leiddi til þess að losun frá nokkrum uppsprettum var endurreiknuð fyrir skilin nú. Endurútreikningarnir leiddu til þess að tölur yfir álega losun fyrir árin 1990-2016 hækkuðu m.v. áður birtar tölur. Nánar má lesa um losun og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum hér.