Stök frétt

Málefni Sameinaðs sílikons hf. eiga sér engin fordæmi hérlendis og mikilvægt er að læra af þeirri reynslu sem málið hefur skapað. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra til Alþingis um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík, sem birt er á vef Alþingis í dag.

Í skýrslunni kemur fram að mál Sameinaðs sílikons hf. hafi haft mikla sérstöðu enda hafi Umhverfisstofnun aldrei áður haft jafn umfangsmikið eftirlit með atvinnurekstri. Það endurspeglast m.a. í fjölda eftirlitsferða Umhverfisstofnunar í verksmiðjuna, kröfum um úrbætur, áherslu á upplýsingar til almennings og stjórnvalda, mati sóttvarnarlæknis á heilsufarsáhrifum og viðamiklum mælingum í grennd við verksmiðjuna. Hefur reynslan af eftirlitinu þegar verið nýtt við undirbúning starfsleyfa fyrir sambærilega starfsemi annarsstaðar, s.s. með ítarlegri ákvæðum um varnir gegn lyktarmengun við útgáfu starfsleyfis kísilverksmiðju PCC við Bakka á Húsavík.

Þá kemur fram í skýrslunni að í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hafi að undanförnu verið unnið að því að styrkja umhverfislöggjöfina. Á síðasta ári var lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir breytt með þeim hætti að skerpt var á ákvæðum er varða bestu aðgengilegu tækni (BAT) og hvernig tekið er tillit til BAT viðmiðana þegar skilyrði fyrir útgefnum starfsleyfum eru sett. Þá er unnið að breytingum á reglugerð um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit þar sem ráðgert er að Umhverfisstofnun verði heimilt að herða frekar kröfur í starfsleyfum þegar um sérstakar aðstæður er að ræða. Fyrirhugað er að leggja frumvarp fram á næsta löggjafarþingi þar sem kveðið verði á um stjórnvaldssektir í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir auk þess sem umhverfis- og auðlindaráðherra mun leggja fram á yfirstandandi þingi, frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Í skýrslunni segir að ljóst sé að rekstraraðili Sameinaðs sílikons hf. uppfyllti ekki tilteknar kröfur í lögum og reglugerðum auk þeirra krafna sem settar voru fram af stjórnvöldum. Þá hafi útgefið byggingarleyfi og mannvirkjagerð hvorki verið í samræmi við mat á umhverfisáhrifum né gildandi skipulag. Verði af áframhaldandi starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík þurfi rekstraraðilar að uppfylla kröfur laga og reglugerða um starfsemina. Í því sambandi þurfi að ljúka endanlegum úrbótum í tengslum við mannvirkjagerðina og skipulag. Þá hafi Umhverfisstofnun tilkynnt rekstraraðila um endurskoðun á starfsleyfi verksmiðjunnar m.a. vegna nauðsynlegrar uppfærslu í ljósi breytinga á lögum. Stofnunin hafi samþykkt úrbótaáætlun rekstraraðila með skilyrðum og hefur verksmiðjan ekki heimild til endurræsingar fyrr en að loknu mati á endurbótum og ákvörðunar Umhverfisstofnunar þar um. Loks beri rekstraraðila að tilkynna Skipulagsstofnun um allar breytingar á mannvirkjum, starfsemi og umhverfisáhrifum sem orðið hafa frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram.

Eins og fram kemur í skýrslunni þá vinnur Ríkisendurskoðun einnig, að beiðni Alþingis, að úttekt og gerð skýrslu um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir mun ráðuneytið taka til skoðunar þær ábendingar sem þar kunna að koma fram.

Sjá skýrsluna hér