Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur samþykkt 2. endurskoðun á umhverfisvöktunaráætlun iðjuveranna á Grundartanga, þ.e. Norðuráls, Elkem Ísland, GMR Endurvinnslunni og Kratus ehf.

Við endurskoðunina hefur verið skerpt á verklagi um að niðurstöður séu sendar Umhverfisstofnun jafnóðum og þær liggja fyrir og símælingum á loftgæðum er streymt í rauntíma á loftgæði.is. Þá hefur vöktun verið aukin í loftgæðastöðvum (Kríuvörðu og Gröf) og loftgæðastöð sett upp í Melahverfi í stað Stekkjaráss. Einnig hefur vöktun í gróðri verið endurskoðuð, s.s. staðsetningar móa- og klapparreita og grassýnatökustaða, tíðni grassýnatöku aukin og sýnatökustað ferskvatns bætt við í Kúludalsá.

Við endurskoðun áætlunarinnar var leitað álits Matvælastofnunar um grasbíta og Faxaflóahafna um vöktun hávaða frá iðnaðarsvæðinu. Jafnframt var tillaga að áætluninni auglýst 18. október – 14. nóvember 2017 þar sem almenningi gafst kostur á að gera athugasemdir sem tekið var tillit til við endurskoðunina. Meðfylgjandi er greinargerð með umhverfisvöktunaráætluninni ásamt svörum við þeim athugasemdum sem bárust á auglýsingatímanum.

Greinargerð

Vöktunaráætlun