Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun stóð nýverið fyrir eftirlitsverkefni með merkingum og innihaldsefnum augnbrúna- og augnháralita. Vörur til slíkrar notkunar innihalda oftar en ekki efni sem gera kröfu um að tiltekin notkunarskilyrði og varnarorð á íslensku fylgi þeim. Verkefnið gekk út á að kanna hvort merkingar vara í úrtaki eftirlitsins væru í samræmi við gildandi kröfur hvað þetta varðar og einnig hvort öll innihaldsefni þeirra væru leyfileg.

Í úrtaki voru  sex birgjar. Skoðaðar voru 22 vörur sem þeir setja á markað, en af þeim voru tvær vörur án frávika. Í 17 tilvikum vantaði alfarið íslenskar merkingar eins og krafa er um. Lagfæra þurfti merkingar á þremur vörum. Engar vörur reyndust innihalda bönnuð efni. Birgjarnir fengu sendar niðurstöður eftirlitsins þar sem fram komu kröfur um úrbætur. Brugðust þeir almennt vel við og urðu við kröfum Umhverfisstofnunar, að einum undanskildum, sem brást ekki við innan tilskilins frests og fór mál hans því til eftirfylgni hjá stofnuninni.

Verkefni þetta sýnir að ekki er vanþörf á að fylgst sé með markaðssetningu á augnbrúna- og augnháralitum sem þurfa íslenskar merkingar af því að þeir innihalda tiltekin innihaldsefni sem geta valdið hættu. Þá þarf að leiðbeina um gildandi reglur og fylgja því eftir að merkingar séu í samræmi við þær. Samantekt um verkefnið má finna hér.