Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur með svarbréfi dags. 19. janúar sl. fallist á úrbótaáætlun Sameinaðs Silíkoni hf. í Helguvík með skilyrðum.

Með bréfi í byrjun september sl. stöðvaði Umhverfisstofnun starfsemi fyrirtækisins. Þá höfðu lyktarvandamál ítrekað komið upp, íbúum til ama. Fordæmalaus fjöldi frávika frá starfsleyfi hafði jafnframt orðið í níu mánaða rekstrarsögu fyrirtækisins.

Sameinað silíkon sendi Umhverfisstofnun úrbótaáætlun með bréfi 14. desember 2017 og 16 janúar 2018. Með svarbréfi Umhverfisstofnunar sem sent var fyrirtækinu 19. janúar sl. setur Umhverfisstofnun fram skilyrði fyrir samþykkt úrbótaáætlunar. Skorsteini verði bætt á verksmiðjuna í þágu íbúa til að minnka lyktarmengun. Stofnunin fellst ekki á þá ósk forsvarsmanna Sameinaðs silíkons að fresta þeirri aðgerð fram yfir endurræsingu.

Fyrirtækinu er samkvæmt bréfinu gert að vinna að fleiri úrbótum. Umbætur hafa þó átt sér stað og telur Umhverfisstofnun m.a. að nýtt og betra reykhreinsivirki fyrir afsog frá aftöppun og steypingu í ofnhúsi sé til bóta.

Sjá bréf Umhverfisstofnunar hér.