Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Aðgerðir sem stuðla að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækjum og bæta orkunýtingu þeirra eru það einstaka mál sem flestir Íslendingar telja brýnast að hið opinbera styðji sérstaklega við þegar kemur að loftslagsmálum. Þetta kemur fram í viðamikilli könnun Gallup á viðhorfi Íslendinga til umhverfismála.

Í gær fór fram ráðstefna um niðurstöður, m.a. með þátttöku Umhverfisstofnunar. Þar kom fram að 48% telja í Umhverfiskönnun Gallup þær aðgerðir sem stuðla að minni losun hjá fyrirtækjum vera mikilvægasta verkefni stjórnmálanna í loftslagsmálum. Næstmikilvægust er talin þróun á umhverfisvænum orkugjöfum, 37% þjóðarinnar eru skv. könnuninni þeirrar skoðunar. Efling almenningssamganga er í þriðja sæti en sjónarmun þar á eftir leggur íslenskur almenningur áherslu á mikilvægi þess að auka skattaívilnanir á rafmagnsbílum, það er auka fjölda vistvænna bifreiða.

75% landsmanna, eða þrír af hverjum fjórum Íslendingum eru sammála þeirri fullyrðingu að nauðsynlegt sé að taka í notkun nýja orkugjafa í þágu sjálfbærs samfélags á Íslandi.

66% landsmanna – eða tveir af hverjum þremur - eru sammála þeirri fullyrðingu að íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. 21% hefur ekki skoðun en aðeins 13% eru ósammála.

Þá hafa 60% landsmanna áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar geta haft á þá og fjölskyldur þeirra.

Sjá nánar hér.