Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir PCC BakkiSilicon hf. Eins og kunnugt er hyggst fyrirtækið hefja framleiðslu á hrákísli í nýbyggðri verksmiðju á iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi. Framleiddur verður meira en 98,5 % hreinn kísill. Veitt er heimild til framleiðslu á allt að 66.000 tonnum á ári.

Auglýsing á starfsleyfistillögu fór fram á tímabilinu 20. júlí til 15. september 2017. Auglýst var í Lögbirtingablaði og í Skránni á Húsavík auk tilkynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Haldinn var kynningarfundur um tillöguna 7. september 2017 í sal Framsýnar, skrifstofu stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Ein umsögn barst um tillöguna frá Landvernd. Umhverfisstofnun ákvað að bera einn lið umsagnarinnar undir Skipulagsstofnun sem fjallaði um meinta annmarka á áliti hennar. Þar var einkum fjallað um sjónarmið samtakanna um að tilteknum atriðum hafi verið sleppt í mati á umhverfisáhrifum. Í meginatriðum var svar Skipulagsstofnunar þess efnis að umfjöllun hennar hafi farið rétt fram samkvæmt lögum. Þá var umsögnin frá Landvernd send til fyrirtækisins sem ákvað að svara henni sérstaklega fyrir sitt leyti. Viðbrögð Umhverfisstofnunar við umsögninni koma hins vegar í heild fram í fylgiskjali 4 í starfsleyfinu.

Nokkur endurskoðun fór fram á ákvæðum starfsleyfisins  eftir auglýsingu tillögu eins og oft er raunin í sambandi við starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Lagfæra þurfti ákvæði um úrgang og var þar fallist á sjónarmið í umsögn Landverndar að ein tilvísun í tillögunni gaf til kynna að afar mikið magn (2.500 tonn á ári) myndi geta myndast af spilliefnum. Þetta var galli á tillögunni sem hefur nú verið lagfærður. Umrædd 2.500 tonn á ári fyrir úrgang voru einnig ákvörðuð út frá sérstökum tilfellum sem gætu komið upp ef að erfitt yrði að selja aukaafurðir. Greinin er einkum hugsuð til að skylda rekstraraðila til að leysa slík vandamál komi þau upp, sem ekki er talið líklegt.

Meðferð málsins, einkum á síðustu stigum, tók verulegt mið af innleiðingu Íslands á tilskipun 2010/75/ESB sem gerð var með breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar á meðal voru kröfur um rykinnihald í útblæstri frá ofnum sem fram koma í skilgreiningu á bestu aðgengilegu tækni (einnig nefnt BAT-niðurstöður).  Mörk eiga að gilda við venjulegar rekstraraðstæður en ekki liggur fyrir hvernig skilgreina skal venjulegar rekstraraðstæður. Þegar starfsleyfistillagan var auglýst var gert ráð fyrir að skilgreina mætti 20% af rekstrartíma utan venjulegra aðstæðna, en það mat var endurskoðað við útgáfu. Ákveðið var að miða við 5% af rekstrartíma. Umhverfisstofnun hefur skoðað hvernig umhverfisyfirvöld í Noregi og annars staðar í Evrópu bregðast við tilskipuninni en ekki þarf að fylgja þessum reglum eftir af fullum þunga fyrr en eftir 30. júní 2020 en þá lýkur aðlögunartíma.

Ítarlega er fjallað um meðhöndlun málsins í greinargerð sem fylgir starfsleyfinu (Fylgiskjal 4) í sjálfu starfsleyfinu). Þar er ítarlegar fjallað um þau atriði sem nefnd eru hér að framan og nokkur fleiri sem skoðuð voru í ferlinu.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 8. nóvember 2033. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Tengd skjöl