Stök frétt

Tröppustígur upp á Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, sem er í umsjá Umhverfisstofnunar, er ein af átta tilnefningum til norrænna verðlauna í arkitektúr. Tilkynnt verður um úrslit á ráðstefnu í Gautaborg fyrrihluta næsta mánaðar.

Keppnin var haldin í tengslum við ráðstefnuna Nordic Architecture Fair 2017 og voru alls 134 verk send inn í keppnina. Tröppustígurinn upp á Saxhól var sérstaklega unninn fyrir Umhverfisstofnun og er eina verk landslagsarkitekta meðal tilnefndra og jafnframt eina íslenska verkið sem komst í úrslitin.

"Himnastiginn eins og hann er stundum kallaður kom okkur svo sannarlega upp í skýin með þessari viðurkenningu, enda verk keppinautanna hvert öðru glæsilegra,“ segja forráðamenn Landslags teiknistofu sem hönnuðu stigann.“

Ólafur A. Jónsson, sviðstjóri sviðs náttúru hjá Umhverfisstofnun, segir mikinn heiður að fá tilnefninguna: „Þetta er mikill heiður fyrir alla sem komu að þessu verki. Það var höfuðverkur að útfæra þennan stiga þannig að vel færi en tilnefningin sýnir okkur að við erum á réttri leið með framkvæmdir sem þessar.“

Umhverfisstofnun þakkar Landslagi og byggingaverktakanum Kvistfelli fyrir góða samvinnu við framkvæmdina.

Mynd: Þráinn Hauksson, Landslagi