Stök frétt

Náttúruvísindi ein og sér munu ekki duga til að skapa sjálfbærni á jörðinni eða hamla gegn hnattrænni hlýnun. Breyta þarf hugmyndum okkar um menntun og setja framtíðina á námskrána allt frá börnum í grunnskólum til háskólanema.

Þessi sýn kom fram í fyrirlestrum sérfræðinga um umhverfismál á fundi sem Umhverfisstofnun Evrópu hélt í Lissabon í vikunni með þátttöku 39 ríkja, þar á meðal fulltrúa Íslands.

Samhljómur var í erindunum hvað varðaði mikilvægi þess að ofmeta ekki mátt tækni og raunvísinda þegar kæmi að gerð reglugerða, spám, leiðbeiningum, tilmælum og öðrum upplýsingum til almennings. Mannlegri breytni yrði ekki stýrt með líkönum sem ekki tækju mið af félagsvísindum. Ný nálgun væri tímabær.

„Ekkert þekkt menntakerfi í Evrópu býr okkur undir framtíðina,“ sagði einn sérfræðinga Umhverfisstofnunar Evrópu.