Stök frétt

„Viðburðurinn tókst mjög vel, ýmis fyrirtæki gáfu margnota poka sem við gáfum gestum og þeir voru mjög ánægðir með það. Flestum ofbýður allt plastmagnið,“ segir Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Á Degi íslenskrar náttúru, sl. laugardag, fór fram í Kringlunni viðburður í tengslum við árvekniátakið Plastlaus september. Almenningi gafst færi á að fræðast um plastlausar lausnir og þann mikla plastúrgang sem fellur til á hverjum degi. Kennt var hvernig gera mætti margnota poka, fræðsla fór fram um strandhreinsun Íslands og þá voru óhefðbundnar leiðir kynntar til að losna við sorp. Þátttaka almennings var mikil og góð.

Landvernd, Reykjavíkurborg, Umhverfisstofnun og Plastlaus september auk Kringlunnar stóðu að viðburðinum. Tilgangurinn er að vekja fólk til umhugsunar um plastógnina og fræða um aðgengilegar leiðir til að draga úr notkun plasts í daglegu lífi.

Myndin sýnir þau 14 kíló sem hver 4ra manna fjölskylda notar að meðaltali á mánuði af umbúðaplasti, en þessi standur Umhverfisstofnunar vakti mikla athygli. í Kringlunni.