Stök frétt

Fyrirkomulag hreindýraveiða hefur verið nokkuð til umræðu síðustu vikur en nú stendur veiðitími yfir. Umhverfisstofnun fer með umsjá stjórnunar á hreindýraveiðum hérlendis og sækir ráðgjöf um fyrirkomulag veiðanna til vísinda sem taka mið af sjálfbærni og dýravernd.

Jóhann G. Gunnarsson, stöðvarstjóri hjá Umhverfisstofnun á Egilsstöðum, starfar við málaflokk hreindýra allan ársins hring. Hann hóf störf árið 2004 hjá Umhverfisstofnun, er grunnskólakennari að mennt og segir þann bakgrunn oft koma sér vel í starfinu, einkum er lýtur að mannlegum samskiptum.

„Ég er fæddur og uppalinn á Austurlandi og ákvað að slá til þegar ég sá þetta starf auglýst. Starfið sem ég vinn var áður hjá Hreindýraráði en verkefni þess fluttust til Umhverfisstofnunar eins og verkefni fleiri stofnana,“ segir Jóhann eða Jói Gutt eins og kunnugir kalla hann.

Gusur af örnefnum og mörg orð um veður

Síminn hjá Jóa hringir um leið og hann sest niður með gesti sínum, vopnuðum myndavél og upptökutæki. Jói virðist leggja upp úr að afgreiða öll erindi um leið og þau berast. Leiðbeina og upplýsa, nú er álagstími. Á línunni er veiðimaður sem falast eftir ráðgjöf án tafar. Gusur af örnefnum standa upp úr okkar manni á Egilsstöðum þegar hann segir viðmælanda sínum til. „Já, kannski yrði ögn snúið fyrir nýjan mann að ganga beint inn í þetta starf mitt ef ég dytti dauður niður á morgun,“ segir Jói og kímir.

Aftur hringir síminn og Jói svarar. Ber þá á góma orðfæri sem sumum viðstöddum er framandi: „Það er norðan kæla núna. Hann er að reka upp í loftið þokuna sem var úti á sjónum, en rigning úti í Heiðarenda,“ segir Jói, rokinn út af skrifstofunni út undir beran himin þar sem hann horfir til allra átta. „Ég sé ekki alveg upp í hnúkinn sem stendur, en ætli hún fari ekki að lyfta sér þokan, ég held það miðað við vindinn eins og hann var í gær. Hann fer að tæma sig.“

Sá sem talar svona um veður er líklegur til að hafa fæðst utan þéttbýlis. Staðháttakunnáttan ber einnig með sér að Jói gjörþekki svæðið, enda ólst hann upp skammt frá Egilsstöðum. „Já, ég er alinn upp í náttúrunni, sveitamaður í húð og hár. Faðir minn var líka leiðsögumaður með  hreindýraveiðum lengi og þar áður skytta fyrir sveitarfélög. Ég þekki því heilmikið til þessa málaflokks,“ segir hann og býður gesti sínum aftur inn á skrifstofuna.

Hreindýraumsýslan varir allt árið

Jóhann starfar ásamt Ásdísi Helgu Bjarnadóttur á skrifstofunni fyrir austan. Þau vinna bæði á sviði sjálfbærni innan Umhverfisstofnunar og hafa því stuðning hvort af öðru. Jóhann útskýrir að starf hans sé tímabilaskipt. Árið hefjist á því að auglýstur sé nýr veiðikvóti fyrir hreindýrin að fengnum tillögum frá Náttúrustofu Austurlands sem er vöktunaraðili stofnsins. Hlutverk Umhverfisstofnunar sé að selja veiðileyfin. Vegna þess að umsóknir um leyfin séu mun fleiri en fjöldi þeirra dýra sem má veiða samkvæmt kvóta sé dregið úr umsóknunum í tölvu og upplýsingar svo sendar til þeirra umsækjenda sem detta í lukkupottinn. Síðan fái hver og einn ákveðinn tíma til að borga og bregðast við.

„Ég færi þessi gögn inn í gagnagrunna, sendi pósta og svara í símann, það er oft mikið hringt. Svo hefur bæst inn í þetta ferli að veiðimenn þurfa að taka skotpróf hjá skotfélögum sem eru með samning við okkur.“

Það gengur erfiðlega að halda áfram með viðtalið því síminn hjá Jóa stoppar varla. Veiðimenn og leiðsögumenn með hreindýraveiðum koma þess á milli hver á fætur öðrum í heimsókn á skrifstofu Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum. Ýmist í leit að upplýsingum eða vegna annarra erinda sem krefjast úrlausnar. Ekki ber á öðru en að Jóa takist vel að leysa úr þessu öllu. Menn snúa sáttir til baka, aftur upp í dalina, fjöllin og heiðarnar.

Fyrirkomulag veiða engin tilviljun

„Ég skil alveg þær tilfinningar sem sumir bera í brjósti gagnvart hreindýrum. En fyrirkomulag veiðanna er engin tilviljun. Þar er horft til dýravelferðar ekki síður en til annarra sjónarmiða. Veiddur er úr stofninum sá fjöldi sem hæfilegt þykir til að stofninn sé sterkur.“

Er Jói þá ánægður með kerfið eins og og það er?

„Það liggur alveg ljóst fyrir að hreindýraveiðar eru dæmi um kerfi sem virkar, þótt alltaf séu skiptar skoðanir um ýmislegt sem snýr að veiðunum. Mikilvægast er þá að menn ræði saman og reyni að bæta og laga það sem er hægt án sleggjudóma og upphrópana. Samkvæmt lögum sér önnur stofnun en Umhverfisstofnun um vöktun hreindýrastofnsins, Náttúrustofa Austurlands. Það er þeirra að tryggja að stofninn sé í sem bestu ásigkomulagi og þá þarf að halda stofninum í skefjum. Það er sem sagt ekki talið réttlætanlegt að hreindýrum fjölgi óheft, því þá yrði ágangur á land of mikill, þau myndu klára sinn kjörgróður á skömmum tíma og stofninn yrði veikari að takast á við slæmt árferði. Þess vegna má veiða ákveðinn fjölda hreindýra á hverju ári og það þarf að vera eðlilegt hlutfall í stofninum milli kúa og tarfa. Það liggur til grundvallar því að þessi veiði er sjálfbær. Hún á að tryggja að stofninn sé í góðu ástandi, því samkvæmt lögum eru veiðar ekki leyfðar nema veiðistofn þoli þær.“

-Þú upplifir þá starf þitt mikilvægt í því að gæta jafnvægis? Að þú sért í hópi „útvarða íslenskra náttúru“ eins og starfsmenn Umhverfisstofnunar hafa verið kallaðir í röð greina sem við höfum birt á heimasíðunni okkar?

„Já, ég geri það að ákveðnu leyti. Og við erum líka svo heppin að vera í nábýli við Náttúrustofu Austurlands, við eigum virkt samtal við þau sem þar starfa. Náttúrustofufólkið fær heilmiklar upplýsingar í gegnum veiðarnar frá okkur og við fáum upplýsingar beint frá þeim þannig að ég sé ekki betur en að allir hafi hag af fyrirkomulagi og nábýli þessara tveggja stofnana hér fyrir austan.“

Fyrri kerfi börn síns tíma

Þótt allt orki tvímælis þá gjört er og fyrirkomulag veiða sé í sífelldri endurskoðun má geta þess að fyrri veiðikerfi sem notuð voru til að fella hreindýr þykja nú börn síns tíma. Skoðun margra fagaðila er að betur sé nú haldið utan um hreindýraveiðarnar en nokkru sinni.  Ekki er ýkja langt síðan sveitarfélögin fyrir austan sáu sjálf um hreindýraveiðar. Hreindýraleyfum var þá oft útdeilt á bæi í sveitum, bændur sáu sjálfir um að fella dýrin, eða skyttur þeirra og koma þeim í verð.  Með auknum rannsóknum og vöktun og með þeirri breytingu að öll veiðileyfi eru nú seld sportveiðimönnum sem þurfa að takast á við mikla ábyrgð og skyldur undir leiðsögn þaulvanra leiðsögumanna hefur hreindýrastofninn náð góðu jafnvægi. Virk veiðistjórnun á ríkan þátt í því að stærstur hluti kvótans næst árlega.

Sérkenni Austurlands

Þeir sem ferðast um Austurland eru fljótir að sjá að hreindýrin skipta fjórðunginn allmiklu máli. Veitingahús gera sum hver út á hreindýrakjöt en eru þó háð því framboði að veiðimenn selji af sinni bráð, því eignaréttur kjötsins er þeirra. Þá eru myndir af hreindýrum víða áberandi jafnt innan stofnana á Austurlandi sem og í einkageiranum. Oft sjást hreindýr frá vegum og getur skapast mikill fögnuður, ekki síst hjá börnum, þar sem fjölskyldur hlaupa til móts við dýrin og reyna að taka myndir. Ný tækifæri hafa einnig skapast í ferðaþjónustu vegna hreindýranna. „Maki veiðimanns og börn gista hér oft og stunda ýmsa afþreyingu á meðan skyttan er á heiðunum. Það má líka nefna vaxandi fyrispurnir frá útlendingum sem vilja komast í ferðir með leiðsögufólki til að sjá dýrin frjáls úti í náttúrunni. Langstærstan hluta ársins eru engar veiðar, þær eru aðeins  leyfðar tvo mánuði á ári. Menn eru að kveikja á því núna að bjóða upp á ferðir þar sem boðið er uppá hreindýraskoðun og tækifæri til myndatökur í þeirra umhverfi,“ segir Jói.

Viðamikið starf um allt land

Ekki er víst að allir átti sig á að Umhverfisstofnun er með þéttriðið net starfsemi út um allt land. Auk Reykjavíkur og Akureyrar eru starfstöðvar í Mývatnssveit, á Ísafirði, á Patreksfirði, í þjóðgarðinum Snæfellsnesjökli, í Vestmannaeyjum, á Hellu, við Gullfoss og Geysi í Haukadalsskógi og svo á Egilsstöðum. Talið berst að því hvort hætta sé á að starfsmenn stofnunarinnar á útstöðvunum geti einangrast úti á jaðrinum ef þeir gæti ekki vel að því frá degi til dags að vera í virkri tengingu við höfuðstöðvarnar.

„Ég þekki ekki annað fyrirkomulag en þetta og hef verið sáttur við samskipti við mitt samstarfsfólk hjá Umhverfisstofnun hvar sem það starfar. Tækninni fleygir fram og það hjálpar til.. Nú er mikið fundað í gegnum skype-kerfið og mér finnst það gott. Ég hef meiri samskipti við kollega mína á Akureyri en í Reykjavík, enda starfar teymisstjóri yfir veiðum á Akureyri, hann Bjarni Pálsson. Mér gengur bæði vel að vera í samstarfi við Akureyri og Reykjavík og mér finnst mjög mikilvægt að fá tækifæri til að hitta samstarfsfólkið fyrir sunnan. Það er eiginlega lágmark að hittast a.m.k. tvisvar á ári og sjá hvert annað augliti til auglitis,“ segir Jói Gutt að lokum.

(Texti: BÞ)