Stök frétt

Ævintýraþrá og áhugi á framandi menningu voru meginhvatar þess að Sindri Antonsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, heimsótti Norður-Kóreu sem ferðamaður í sumarfríi sínu fyrir skemmstu. Sennilega má telja þá Íslendinga á fingrum annarrar handar sem hafa heimsótt Norður-Kóreu og ekki víst að allir myndu nýta tækifærið þótt það byðist.

„Ferðalög eru ein besta leiðin til að útrýma eigin fordómum og öðlast marktæka vitneskju,“ segir Sindri, reynslunni ríkari að loknu ferðalagi. Aðspurður segist hann aldrei hafa óttast um öryggi sitt á ferðalaginu.

Handstýrt ferðalag

Sindri pantaði ferðina í gegnum erlenda ferðaskrifstofu. Áskilið er að ferðamenn ferðist saman í hópi með leiðsögumanni sem yfirvöldum er þóknanlegur. Stjórnarherrar Norður-Kóreu heimila ekki að gestir ferðist á eigin vegum og þeir fá ekki að skoða hvað sem er. Á meðan dvölinni stendur er leitast við að draga upp jákvæða mynd af þessu tímavillta sósíalistaríki, þar sem þorri starfandi stétta  fær miða en ekki peninga fyrir mat, fötum og samgöngum í skiptum fyrir vinnu sína. Norður-Kórea er ríki þar sem íbúðum er útdeilt, þær ganga ekki kaupum og sölum á markaði.

Að ýmsu að hyggja

Spurður um undirbúning svona ferðar segir Sindri að ferðamenn verði fyrst og fremst að vera tilbúnir til að heimsækja landið með opnum huga. Þeir megi ekki hafa með sér bækur eða rafrænt efni sem teljist ögrandi eða óviðurkvæmilegt í heimi norður-kóreska hersins eða einræðisherranna. Facebook-reikningar gesta séu að líkindum skoðaðir af norður-kóreskum yfirvöldum áður en túristar fá landvistarleyfi svo eitt sé nefnt. Annars hafi undirbúningsferlið í raun verið lítið mál.

Bara ein flugvél á vellinum

Það vakti athygli Sindra þegar norður-kóreska ríkisflugvélin lenti á flugvellinum í Pyongyang eftir flugtak frá Kína, að engin önnur flugvél var á ferðinni við flugstöðina. Allur farangurinn hans var tekinn og þaulskoðaður, allt innihald símans hans rannsakað. Svo lá leiðin upp á risastórt hótel sem stóð alautt fyrir utan nokkur herbergi.

Vettvangur dramatískra atburða

Hótelið sem Sindri gisti á hringir fréttabjöllum, því Otto Warmbier, bandaríski námsmaðurinn sem heimsótti Norður-Kóreu sem ferðamaður fyrir einu og hálfu ári og lést eftir langa dvöl í fangabúðum þar eystra, gisti á sama hóteli. Þar braut bandaríski námsmaðurinn húsreglu sem átti eftir að reynast örlagaríkt. Warmbier var undir áhrifum áfengis og varð á að heimsækja þá hæð hótelsins sem bannað er að fara um, hæð starfsmanna. Hann lét ekki við það sitja heldur tók einnig niður plaggat af vegg, mynd af háttsettum leiðtoga. Þá hófst atburðarás sem leiddi síðar til dauða hans. Norður-kóresk yfirvöld kalla málið „ráðgátu“ en Bandaríkjamenn eru á annarri skoðun.

Erfitt að finna raunveruleikann

Sindri segir að sér hafi snemma orðið ljóst í ferðinni að erfitt gæti reynst að greina milli þess sem væri raunverulegt og þess sem var sett á svið. En hótelið hafi verið flott og margs konar afþreying í boði, s.s. sundlaug: keila og karaókí. „Svo var þarna kona sem situr allan daginn á stól með borðtennisspaða í hendi ef ske kynni að ferðamann vanti einhvern að spila við.“

Fólkið vinalegt og börnin forvitin

Daginn eftir fyrstu nóttina á hótelinu var farið í skoðunarferð um höfuðborgina. Stórkostleg minnismerki eru að sögn Sindra skoðuð út um alla borg. Dagskráin næstu daga hafi í raun ekki verið alólík því sem vænta mætti í „frjálsu“ ríki. Farið var með ferðamennina í miðbæinn og torgið skoðað þar sem boðið er reglulega upp á stóru hermannagöngurnar og hersýningarnar.

„Íbúarnir voru vinalegir og krakkarnir veifuðu okkur útlendingunum, brostu og hrópuðu: Hello! Kannski var þetta í fyrsta skipti sem þeir sáu útlendinga,“ segir Sindri.

Erfitt að fylgjast með umheiminum

Hitt liggur fyrir að úthugsað val á sér stað áður en farið er með ferðamenn í skoðunarferðir. Alls konar upplýsingum er haldið niðri og fjölmiðlaefni vandlega ritskoðað. Ferðamenn hafa aðgang að að enskri útgáfu á norður-kóreskum fréttum sem gefin er út með velþóknun yfirvalda og leyfilegt er að horfa á Al Jazeera á hótelum. Um tíma var hægt að fylgjast með BBC á hótelum í  Norður-Kóreu uns breska ríkisútvarpið flutti frétt sem yfirvöldum líkaði ekki. Þá var slökkt á breska ríkisútvarpinu í Pyongyang og hafa einræðisherrarnir ekki séð ástæðu til að opna það aftur.

Bannað að tala illa um yfirvöld

„Það eru til tvær tegundir af glæpum í Norður-Kóreu, þessir venjulegu glæpir og svo aftur þessir pólitísku glæpir,“ segir Sindri.

-Hvernig er hinn pólitíski glæpur?

„Leiðsögumaðurinn okkar sagði að pólitískir glæpir fælust sem dæmi í því að tala illa um stjórnarherrana eða ríkið eða boða trú eða annað sem er bannað. Það eru sem sagt tvær tegundir af glæpum, tvær tegundir af föngum og tvær tegundir af fangelsum. Pólitísku fangelsin eru sögð miklu verri en hin fangelsins, algjör hryllingur.“

-Er sem sagt mun minni synd að stela banana en vera með „vondar“ skoðanir?

„Já, algjörlega.“

-Og miðar skoðanastýringin að því að halda óbreyttu ástandi?

„Já, að vissu leyti en hún er líka til marks um hve einræðisherrarnir eru helteknir af fortíðinni. Ég fann ekki fyrir því að íbúarnir væru heilaþvegnir, þeir vita hvar þeir standa í samanburði við önnur lönd, þeir leita upplýsinga út fyrir landsteinana. Mér fannst eins og almenningur væri alls ekki á sömu línu og yfirvöld,“ svarar Sindri.

Ekki talað um umhverfismál

Talið hlýtur að berast að umhverfismálum og bendir Sindri á að sumpart séu Norður-Kóreumenn mjög umhverfisvænir, t.d. í matarvenjum. Hrísgrjón séu uppistaðan í fæðu landsmanna. Þeirra sé aflað með vistvænum og sjálfbærum hætti miðað við ýmsa aðra matvælaframleiðslu. Hvað iðnað varðar standi skortur á tækni heimamönnum fyrir þrifum. Eina leiðin til að búa til rafmagn sé með kolum fyrir utan örlitla rafmagnsframleiðslu með sólarorku. „Þeir eru rosalega eftir á í mörgu og þú heyrir þá ekki ræða umhverfismál.“

Hugurinn opnaðist

-En opnaðist hugur Sindra að einhverju leyti við þessa ferð?

„Já, klárlega. Skoðanir mínar breyttust. Þessir stjórnarkarlar þarna eru náttúrlega mjög skrýtnir en í öllum ríkjum lifir venjulegt fólk og það er ekki sök fólksins að vera óheppin með stjórnvöld. Íbúarnir þarna eru fólk eins og ég og þú. Þeir reyna að lifa lífinu, finna lífsförunaut, eignast börn, gera skemmtilega hluti en það er snúnara en ella vegna vondu leiðtoganna.“

Ekki heilaþvegið land

-Upplifðirðu íbúana sem „heilaþvegna“?

„Nei, þetta er ekki heilavegið land. Íbúarnir eiga erfitt, aðstæðurnar eru einstakar. Þeir vita að landið þeirra er einstætt í heiminum en ég fann enga andúð gagnvart útlendingum eins og maður hafði heyrt af.  Þá langar að sameinast Suður-Kóreu þótt maður hafi heyrt annað, en það virðist ekki geta gengið á sama tíma og Bandaríkjamenn eru með herstöðvar í Suður-Kóreu.“

Ný sýn á tengsl hamingju og peninga

-Fékkstu nýja sýn á samband hamingju og peninga þarna úti?

„Já algjörlega. Þarna er fólk sem hefur aldrei séð snjallsíma en líður ekkert verr en öðrum, held ég. Bílaeign er sáralítil og þótt þú fáir aðgang að bíl er ekki sjálfgefið að það sé til bensín í landinu. En þótt menn lifi naumlega hefur fólk það ágætt, að því er virðist þegar maður fylgist með fólkinu á götunum. Fólkið þarna kann alveg að lifa lífinu en kannski eru aðstæður erfiðari í sveitunum, meiri fátækt.“

Ferðalög útrýma fordómum

Sindri er 28 ára gamall sérfræðingur sem starfar á upplýsingasviði Umhverfisstofnunar. Hann er að klára BA í hagnýtri stærðfræði og skartar BA-prófi í japönsku. Hann á grískan föður, er sjálfur fæddur í Grikklandi en flutti til Íslands 4ra ára gamall. Ferðalög hafa alla tíð verið órofa hluti af lífinu. Hann segist hvergi hættur í leitinni að nýrri vitneskju og upplifun.

„Það er ekki betri leið til að eyða fordómum en að ferðast.“

Viðtal: Björn Þorláksson upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar.