Stök frétt

Fyrirtækjum sem markaðssetja tiltekin varnarefni þ.e. plöntuverndarvörur og nagdýraeitur sem ætluð er til notkunar í atvinnuskyni, ber árlega að afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar um sölu á þessum vörum og kaupendur þeirra. Umhverfisstofnun nýtir þessar upplýsingar m.a. til að reikna út áhættuvísa vegna markaðssetningar á plöntuverndarvörum sem settir eru fram í Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031.

Stofnunin hefur nýverið lokið greiningu á þessum upplýsingum vegna ársins 2016. Þar kemur í ljós að sala á nagdýraeitri nam rúmlega 5 tonnum árið 2016 og jókst lítillega milli ára eða um 7%. Aftur á móti jókst sala á plöntuverndarvörum til notkunar í atvinnuskyni um 141% og fór úr 2,4 tonnum upp í 5,9 tonn á milli ára. Meginástæðan fyrir þessari miklu aukningu var mikil sala í lok árs á nokkrum plöntuverndarvörum, einkum illgresiseyðum. Ástæðan var sú að tímabundna skráningin fyrir þessum vörum rann út 31. desember 2016 og þar sem þær eru bara notaðar á sumrin mun notkunin falla á árið 2017. Þessar tölur gefa því ekki allskostar rétta mynd af því hve mikið var notað af plöntuverndarvörum sem ætlaðar eru til notkunar í atvinnuskyni á árinu 2016.

Sala upp á 5,9 tonn af plöntuverndarvörum samsvarar 2,2 tonnum af virku efni. Samkvæmt áhættuvísi í aðgerðaáætlun er miðað við að salan nemi ekki meiru en 2,4 tonnum af virku efni á ári. Það er því ljóst að þetta markmið hefur náðst á árinu 2016 þrátt fyrir aukna sölu á þessum vörum.

Til að kaupa varnarefni sem ætluð eru til notkunar í atvinnuskyni þurfa einstaklingar að hafa gilt notendaleyfi frá Umhverfisstofnun. Reyndust nánast allir kaupendur að nagdýraeitri (99%) vera með slíkt leyfi í gildi. Hins vegar kemur enn í ljós að stór hluti þeirra sem festu kaup á plöntuverndarvörum til notkunar í atvinnuskyni voru ekki með gilt notendaleyfi þegar kaupin áttu sér stað. Þannig höfðu 80 kaupendur af 155 (52%) aldrei haft notendaleyfi eða önnur sambærileg leyfi og 14 kaupendur (9%) voru með útrunnið leyfi. Miðað við þessar niðurstöður er ljóst að Umhverfisstofnun þarf áfram að fylgja því fast eftir með þeim úrræðum sem hún býr yfir, að fyrirtæki sem markaðssetja plöntuverndarvörur uppfylli skyldur sínar hvað þetta varðar.

Niðurstöðurnar úr þessu verkefni og öðrum eftirlitsverkefnum Umhverfisstofnunar með efnavörum má kynna sér nánar á heimasíðu stofnunarinnar.