Stök frétt

Þann 24. maí sl. var haldin ráðstefnan „Úrgangur í dag – Auðlind á morgun“. Upptökur af fyrirlestrum eru nú aðgengilegar á heimasíðu ráðstefnunnar og kennir ýmissa grasa. Sjá hér.

Umhverfisstofnun hélt utan um ráðstefnuna fyrir hönd NordBio verkefnisins sem fjallaði um þá verðmætasköpun sem felst í bættri nýtingu lífrænna aukaafurða. Á ráðstefnunni var meðal annars komið inn á hvernig bætt nýting getur haft jákvæð áhrif á byggðaþróun með aukinni verðmætasköpun og atvinnutækifærum í dreifðari byggðum.

Lykilfyrirlesarinn, Sigríður Þormóðsdóttir frá Innovation Norge, kom inn á hvernig stjórnvöld í Noregi hafa ýtt undir aukna nýtingu meðal annars með því að greina regluverkið í heilu lagi með það að markmiði að það styðji við nýtingu lífrænna aukaafurða. Ljóst var að ráðstefnu lokinni að margar hindranir geta verið á vegi nýsköpunaraðila þar sem regluverkið getur verið torskilið. Þannig er mikil þörf á að stofnanir taki sig saman til að bæta þjónustu til slíkra aðila með ráðgjöf. Nokkuð mörg nýsköpunarfyrirtæki kynntu vörurnar sínar sem framleiddar eru úr annars ónýttum afurðum (sjá kynningarmyndbönd.

Róbert Guðfinnsson athafnamaður á Siglufirði var í hópi þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni. Hann stefnir að markaðssetningu í sumar á Englandi með fæðubótarefni sem unnið er hjá Genis á Siglufirði úr rækjuskel. Hann gagnrýndi m.a. það sem hann kallaði „hjarðhegðun fjármagns“ þegar kæmi að hugmyndum skammsýnna fjárfesta. Hann varaði við að fjárfestar horfðu of þröngt á hlutina. Róbert segir menntun og frumkvæði tryggja betra og umhverfisvænna líf á Íslandi.