Stök frétt

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur tekið saman upplýsingar yfir komur sjúkrabíla á Gullfoss og Geysissvæðið vegna hálkuslysa eða annarra slysa. Þrátt fyrir ört vaxandi umferð ferðamanna virðist sem tekist hafi að bæta öryggi ferðamanna. Slysum hefur fækkað í öfugu hlutfalli við fjölgun gesta.

Síðastliðinn vetur, 2016-2017 urðu alls 7 slys.

Veturinn 2015-2016 urðu 18 slys.

Veturinn 2014-2015 urðu 10 slys.

Slysin skiptast þannig að síðustu þrjá vetur urðu 23 slys á Geysissvæðinu en 12 slys

á sama tíma við Gullfoss.

Lárus Kjartansson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem hefur umsjón með Gullfossi og Geysi, segir að samkvæmt yfirlitinu sé Geysissvæðið hættulegra svæði en Gullfoss. Flest slys eigi sér stað í kringum Strokk.

„Það er líka áberandi að slysin verða frekar um helgar og það var engin vetrarþjónusta um helgar síðastliðinn vetur. Alls urðu aðeins þrjú slys samanlagt á þessum tveimur stöðum á virkum dögum í vetur. Mitt mat er að hægt væri að koma í veg fyrir nánast öll slys ef Umhverfisstofnun væri alla daga með tæki og mannskap á báðum stöðum,“ segir Lárus.

Lárus nefnir sem áhrifaþætti í þeirri þróun að slysum fækkað að betri tækjabúnaður sé nú til söndunar og snjómoksturs en var. Aðgangur sé nú að upphituðum sandi og sett hafi verið upp hálkuvarnaskilti sem bendi fólki á að fara varlega og nota mannbrodda. Einnig hafi lokanir á svæðum bæði tímabundið og til lengri tíma haft mikið að segja.

„En við getum enn gert betur," bætir Lárus við.