Stök frétt

Nú þegar sól hækkar ört á himinhvolfinu, hjólum fjölgar á göngustígum og grasið grænkar fallega undir blíðum sunnanvindaspám Veðurstofunnar, kemur líka í ljós mikið magn af rusli, sem áður lá undir snjó.

Við þessu ákváðu starfsmenn Umhverfisstofnunar við Suðurlandsbraut í Reykjavík að bregðast. Þeir litu upp frá skrifborðunum í dag, gengu út í vorið og tíndu rusl hvar sem þeir fundu. Fór vel á framtakinu, ekki síst þar sem Dagur umhverfisins er haldinn hátíðlegur á landinu í dag.

Starfsmenn Umhverfisstofnunar notuðu einnig tækifærið og hvöttu starfsmenn nærliggjandi vinnustaða til að taka þátt í átakinu. Einnig fór fram fræðsla um skaðsemi plasts í umhverfinu og var lífbrjótanlegum pokum útdeilt til að nota við hreinsunina.