Stök frétt

Eldgígurinn og áningarstaðurinn Saxhóll í þjóðgarðinum Snæfellsjökli hefur verið tilnefndur til Menningarverðlauna DV fyrir árið 2016 fyrir arkitektúr. Umhverfisstofnun hefur umsjón með þjóðgarðinum. Jón Björnsson þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi segir ánægju fylgja tilnefningunni en jafnframt ábyrgð.

„Við gleðjumst yfir því sem vel er gert en stöndum á sama tíma frammi fyrir þeirri áskorun að standa okkur sem best í því sem við erum að gera. Það má ekki sofna á verðinum.“

Ferðamönnum hefur fjölgað verulega í þjóðgarðinum og nærliggjandi svæðum og ekki er sýnilegt lát á þeirri þróun. „Á sama tíma hefur þjóðgarðurinn fengið ýmsar viðurkenningar og jákvætt umtal sem er vonandi vísbending þess að við séum á réttri leið,“ segir Jón.

Saxhóll er 45 metra hár keilulaga gígur með lausu lítt grónu gjalli í hlíðum. Með sívaxandi fjölda gesta var Landslagsarkitektastofan Landslag fengin til að hanna tröppustíg í þeim tilgangi að tryggja öryggi gesta og um leið takmarka svæði á hólnum sem verður fyrir ágangi. Tröppustígurinn er úr svörtu stáli sem ryðgaði fljótlega og samlagaðist litbrigðum hólsins. Stígurinn er lagður eftir sárinu sem hafði myndast í hólinn og er settur saman úr tveimur bogum sem mætast á hvíldarpalli á miðri leið.

Í umsögn DV segir: „Inngripið er ekki mikið en það er sterkt í einfaldleika sínum. Það þjónar tilgangi sínum vel og fellur einstaklega vel og ljóðrænt inn í landslagið. Tröppustígurinn er gott dæmi um það hvernig leysa má aðgengi að áningarstöðum ferðamanna á einfaldan og fágaðan hátt en um leið bera virðingu fyrir náttúrunni.“

Myndina tók Jón Björnsson