Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila  í staðbundinni starfsemi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fyrir árið 2017 í samræmi við 12. grein laga um loftslagsmál nr. 70/2012.

Alls var úthlutað 1.359.499 losunarheimildum til rekstraraðila í staðbundinni starfsemi.

Úthlutun til rekstraraðila byggir á reglugerð nr. 73/2013, um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila í staðbundinni starfsemi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Hún er í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB 2011/278/ESB.

Í byrjun febrúar sl. kom framkvæmdastjórn ESB fram með tillögu að nýrri reglugerð um framlengingu á tímabundinni þrengingu á gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir í flugi, sem gilti frá 2013-2016 en mun nún væntanlega verða framlengd til ársins 2020.

Vegna tilkomu tillögu framkvæmdastjórnar ESB var Umhverfisstofnun ekki unnt að úthluta losunarheimildum til flugrekenda þann 28. febrúar sl.

Stefnt er að því að úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda verði lokið fyrir 30. apríl næstkomandi, sem er jafnframt síðasti dagur til að standa skil á  losunarheimildum í viðskiptakerfinu vegna losunar ársins 2016. Umhverfisstofnun mun leggja allt kapp á að úthlutunin muni eiga sér stað innan áðurnefndra tímamarka og mun fjöldi endurgjaldslausra losunarheimilda sem þá verður úthlutað fyrir árið 2017 haldast í hendur við fram komna tillögu að hinu áframhaldandi breytta gildissviði viðskiptakerfisins.

Frekari upplýsingar um breytingartillöguna má finna hér: http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=COM:2017:0054:FIN

 

Lista yfir spurningar og svör varðandi breytingartillöguna má finna hér: https://ec.europa.eu/clima/sites/clima/files/transport/faq_aviation_ets_en.pdf