Stök frétt

Álag á göngustígum við Skógafoss hefur verið gríðarlegt í vetur vegna mikils ferðamannastraums. Hlýindi og vætutíð hafa gert það að verkum að göngustígar hafa vaðist upp í leðju og hætta hefur verið á verulegum skemmdum á viðkvæmri náttúru svæðisins. Umhverfisstofnun lokaði  göngustígnum á Skógaheiði þann 9. desember síðastliðinn tímabundið fyrir ferðamönnum með það að markmiði að vinna að viðeigandi verndarráðstöfunum t.d. með því að byggja þar upp malargöngustíg.

Ljóst er að framkvæmdir á Skógaheiði munu taka tíma og spilar veðráttan þar stórt hlutverk. Umhverfisstofnun auglýsir hér með að göngustígurinn á Skógaheiði verður lokaður næstu 12 vikurnar. Lokunin gildir því til 17. mars 2017, eða þar til verndarráðstöfunum er lokið og óhætt verður að hleypa umferð fólks aftur inn á svæðið. Lokunin er samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd.