Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í síðastliðinni viku hélt Norræna ráðherranefndin alþjóðlega ráðstefnu um lífhagkerfið  undir yfirskriftinni Minding the future: Bioeconomy in a changing Nordic reality. Ráðstefnan markaði lokapunkt formennskuáætlunnar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni þar sem Norræna lífhagkerfið eða NordBio var forgangsverkefni. Markmið verkefnisins var að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu náttúruauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun. Fjölmörg verkefni voru unnin síðastliðin þrjú ár með þetta að markmiði, m.a.  var útbúið kennsluefni til að auka nýsköpun, skoðaðar leiðir til sjálfbærari matvælaframleiðsla og orkuskiptum í sjávarútvegi.

Umhverfisstofnun vann verkefni sem bar heitið Lífrænn úrgangur til nýsköpunar og fól í sér að meta magn og kortleggja lífbrjótanlega úrgangsmyndun á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Reynslan hefur sýnt að mikil verðmæti geta leynst í lífbrjótanlegum aukaafurðum með aukinni nýtni og má þar t.d. nefna aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi síðustu ár. Ein helsta niðurstaða verkefnisins var að auka þarf gagnasöfnun um lífbrjótanlegan úrgang og að mörg tækifæri eru til staðar til betri nýtingar. Einnig kom í ljós að tengsl vantar á milli þeirra sem mynda úrgang við sína starfsemi og þeirra sem gætu hugsanlega nýtt þessa aukaafurð.

Umhverfisstofnun vann í framhaldinu að vefmarkaðstorg fyrir lífrænar aukaafurðir undir heitinu Auðlindatorgið til að mynda þessi tengsl. Markmiðið er að fólk nýti Auðlindatorgið til að útvega hráefni og skapa verðmæti. Notendur geta skráð sig inn og auglýst hráefni til sölu eða óskað eftir einhverju. Auðlindatorgið mun þar með styðja við sjálfbærari nýtingu náttúruauðlinda og sýna að eins manns aukaafurð er annars hráefni.