Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Undanfarið hafa fulltrúar Bláskógabyggðar, landeigenda í Brattholti og Umhverfisstofnunar unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Gullfoss og nágrenni. Tillagan er hér með lögð fram til kynningar.

Gullfoss, ásamt næsta nágrenni, var friðlýstur sem friðland árið 1979. Með friðlýsingunni er almennt stuðlað að því að lífríki svæðisins fái að þróast eftir eigin forsendum, að jarðmyndunum sé ekki raskað og náttúrufegurð haldist ósnortin.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Gullfoss er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við landeigendur og sveitarfélag, og er hún hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun Gullfoss og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Sérstaða svæðisins er mikil og með áætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til miðvikudagsins 31. ágúst 2016. Hægt er að skila inn athugasemdum á vefnum eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.