Pixel hefur hlotið vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti eigendum leyfið við hátíðlega athöfn fyrr í dag í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Ármúla, Reykjavík.
Eigendur Pixel eru þeir Halldór Friðgeir Ólafsson og Ingi Hlynur Sævarsson og hafa þeir rekið fyrirtækið í núverandi mynd frá 2003, þó hægt sé að rekja sögu fyrirtækisins aftur til ársins 1998. Pixel hefur stækkað jafnt og þétt undanfarin 13 ár og í dag starfa 18 manns hjá fyrirtækinu bæði í höfuðstöðvum þess í Reykjavík sem og í útibúi fyrirtækisins á Ísafirði.
Við leyfisveitinguna bætist Pixel í ört stækkandi hóp Svansvottaðra fyrirtækja sem eru nú orðin 31 talsins. Það verður því sífellt auðveldara fyrir íslenska neytendur að velja umhverfismerkta vöru og þjónustu. Starfsemi Pixel stóðst kröfur Svansins og eiga aðstandendur vottunarinnar hrós skilið.
Norræna umhverfismerkið Svanurinn
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta yfir 60 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.
Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur miðast að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá öllu prentferlinu, allt frá uppruna hráefna til meðhöndlun úrgangs:
Mikilvægt er að koma skilaboðunum til neytenda að þeirra val skiptir höfuðmáli; hægt er að velja vörur sem hafa afar slæm áhrif á umhverfið eða vörur þar sem áhrifin hafa verið minnkuð til muna.
Þannig auðveldar Svansmerkið neytendum við valið.