Stök frétt

Almennt verjum við miklum tíma innanhúss. Loftið sem við öndum að okkur á heimilum okkar, í skólum og á vinnustöðum getur haft áhrif á heilsu okkar og velferð. Óheilnæmt inniloft er viðurkennt sem áhættuþáttur fyrir heilsu manna út um allan heim. Gæði innilofts getur haft áhrif á heilsufar fólks, t.d. valdið þurrki í augum, sviða í nefi og hálsi, höfuðverk, þreytu og aukið á ofnæmiseinkenni og öndunarfærasjúkdóma. Merki um óheilnæmt inniloft geta verið tíðar öndunarfærasýkingar íbúa, þungt loft, mygluvöxtur, saggalykt eða önnur langvarandi lykt og mikil móða eða hélun á rúðum.

Það er því mikilvægt að viðhalda heilnæmu innilofti í híbýlum og til eru góð og einföld ráð fyrir heilnæmt inniloft:

  • lofta út, gott að miða við gegnumtrekk tvisvar á dag í 10 mínútur í senn og loftræsa vel þar sem föt eru þurrkuð,
  • ekki leyfa reykingar innandyra,
  • þurrka af og þrífa heimilið reglulega (sér í lagi ef gæludýr á heimilinu),
  • nota umhverfisvottaðar vörur við hreingerningar,
  • fylgjast með merkjum um raka og mygluvöxt,
  • gera við vatnsleka og þurrka svæði sem hafa orðið fyrir vatnsleka innan 24-48 klukkustunda til að varna mygluvexti,
  • tryggja að ofnar/hitun húsnæðis sé í lagi.

Gæði inniloft stjórnast því af mörgum ólíkum þáttum en ef mygla er vandmál er lykilatriði að koma í veg fyrir raka. Mygla er agnarsmár sveppur, sveppurinn myndar gró sem svífa um í loftinu. Mygla þrífst best í röku umhverfi og er vöxtur hennar háður fjórum þáttum: æti, lofti, viðunandi hitastigi og vatni.. Myglu skal hreinsa vandlega í burtu með sápuvatni og rökum klúti og gera við lekavandamál sem valda mygluvexti. Mikilvægt er að þurrka vandlega svæði og hluti sem hafa blotnað vegna vatnsleka innan 24-48 klst til að varna mygluvexti.

Fjöldamargar rannsóknir sýna tengsl á milli heilsufars og raka og myglu, t.d. við þróun astma og sýkinga og sjúkdóma í öndunarfærum, en ekki hefur tekist að sýna fram á bein orsakatengsl milli heilsufars og raka og myglu í innilofti. Hugsanleg heilsufarsleg áhrif af mygluvexti eru aðalástæða þess að mikilvægt er að koma í veg fyrir mygluvöxt á heimilum fólks, hreinsa í burtu myglu sem finnst og bregðast við orsökum mygluvaxtar. Mygla getur framleitt ofnæmisvaka (efni sem geta valdið ofnæmisviðbrögðum), ertandi efni og í einhverjum tilfellum eiturefni (mycotoxin). Athuga skal þó að mygla er yfirleitt ekki til vandræða innandyra nema myglugróum fjölgi verulega og eru einstaklingar misviðkvæmir.

Nánari upplýsingar er að finna á eftirfarandi slóð: http://ust.is/einstaklingar/graenn-lifsstill/heimilid/raki-og-mygla/