Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir álver Norðuráls Grundartanga ehf.

Eldra starfsleyfi gilti til ársins 2020 og veitti heimild til að framleiða allt að 300.000 tonnum af áli á ári. Framleiðsla Norðuráls hefur verið aukast og vegna áforma um enn meiri framleiðslu með straumhækkun sótti fyrirtækið  um nýtt starfsleyfi.

Starfsleyfistillaga fyrir álverið var í auglýsingu á tímabilinu 25. ágúst til 20. október 2015. Kynningarfundur var einnig haldinn 31. ágúst í Fannahlíð, Hvalfjarðarsveit. Sjö umsagnir bárust um tillöguna. Þegar starfsleyfistillagan fór í auglýsingu var það gert í ósamræmi við deiliskipulag, en litið var til þess að tillaga um breytt deiliskipulag var í auglýsingu hjá sveitarfélaginu. Samkvæmt upplýsingum frá Hvalfjarðarsveit er nýtt deiliskipulag nú tilbúið til birtingar og málsmeðferð lokið.

Ákveðið var að svara öllum atriðum í umsögnunum sem vörðuðu Norðurál í greinargerð þó að sumar athugasemdir sem fram komu vörðuðu ekki starfsleyfið beint, en í umsögnunum var meðal annars að finna atriði sem varða sameiginlegu umhverfisvöktunina á Grundartangasvæðinu. Umhverfisstofnun nýtir umsagnir af þessu tagi til þess að bæta starfsleyfi sín en í þessu tilfelli munu þær einnig hafa áhrif á framkvæmd umhverfisvöktunarinnar. Þá verður skoðað nánar fyrir öll starfsleyfi útgefin af stofnuninni hvort ástæða sé til þess að birta á vefsíðum leyfisskyldra rekstraraðila áhættumöt og áætlanir vegna bráðamengunar og vegna frágangs við mögulega rekstrarstöðvun. Umhverfisstofnun birtir í dag útgefin starfsleyfi og niðurstöður eftirlits, mælinga, vöktunar og þvingunarúrræða.

Í athugasemdunum voru nokkur atriði sem komu ítrekað fram. Í greinargerðinni er því sérstök umfjöllun um fyrirkomulag vöktunar (bæði varðandi losun og umhverfisvöktun) og um framsetningu gagna á kynningarfundum, um vöktun flúors og um þynningarsvæði álversins. Einnig er þar gerð grein fyrir viðbrögðum við einstökum athugasemdum.

Í stórum dráttum eru viðbrögðin við ofangreindum atriðum eftirfarandi: Farið verður yfir fyrirkomulag kynningarfunda og ábyrgð þeirra. Á vettvangi umhverfisvöktunarinnar verður skoðað hvort ekki sé tilefni til að vakta flúor allt árið á mælistöðvunum á Kríuvörðu og Gröf. Einnig gæti á þeim vettvangi komið til greina sérstök vöktun á flúor að Kúludalsá en sú hugmynd kemur til vegna veikinda sem hafa komið fram í hrossum á bænum. Ekki hefur verið sýnt fram á að þau veikindi stafi af flúormengun en Umhverfisstofnun telur engu að síður fulla ástæðu til mælinga á flúorstyrk. Varðandi þynningarsvæði telur Umhverfisstofnun að skýrleiki þurfi að vera meiri varðandi hvaða lög og reglugerðir gilda um þynningarsvæði og hefur gert umhverfis- og auðlindaráðuneytinu viðvart um það sjónarmið.

Í athugasemdum kom einnig fram sú skoðun að upplýsa þurfi almenning um mengunaróhöpp. Í þessu sambandi er sérstaklega horft til viðsjárverðra óhappa sem gætu orðið ef svo illa vill til að þurrhreinsivirki fer úr rekstri í lengri tíma. Minnt var á að einmitt þetta gerðist árið 2006. Brugðist hefur verið við þessu með því að í starfsleyfið hefur verið sett ákvæði um að koma þurfi upplýsingum sem fyrst á framfæri við búfjáreigendur í nágrenninu ef þurrhreinsivirki er úr rekstri í þrjár klukkustundir. Þetta ákvæði er til viðbótar við mun víðtækari tilkynningarskyldu til Umhverfisstofnunar. Þá má nefna að sett er frekari skýring í starfsleyfið í grein sem fjallar um að eftirlitsaðili geti ákveðið, telji hann ástæðu til, að fara fram á tíðari mengunarmælingar eða heimilað að dregið verði úr tíðni mælinga. Viðbótin skýrir nánar hvenær heimilt er að draga úr tíðni mælinga.

Loks er í greinargerðinni farið ítarlega yfir forsendur nokkurra annarra ákvæða starfsleyfisins sem gerðar voru athugasemdir um. Auk þess hafa minniháttar villur verið lagfærðar og orðalagi breytt á stöku stað.

Starfsleyfi Norðuráls Grundartanga ehf. öðlast þegar gildi og gildir til 16. desember 2031. Fyrra starfsleyfi fyrirtækisins fellur þar með úr gildi.

Tengd skjöl