Stök frétt

Þann 16. desember sl. gaf Umhverfisstofnun út ný starfsleyfi fyrir urðunarstaðina á Vopnafirði, á Kópaskeri og í Laugardal við Húsavík.  Um er að ræða urðunarstaði sem hafa verið starfandi áður.

Tillaga að starfsleyfi fyrir urðunarstað Vopnafjarðarhrepps að Búðaröxl var auglýst á tímabilinu 5. október – 30. nóvember 2015 en Umhverfisstofnun bárust engar athugasemdir við hana.  Samkvæmt hinu nýja starfsleyfi er Vopnafjarðarhreppi heimilt að taka á móti og urða allt 1000 tonn af úrgangi á ári, frá Vopnafjarðarhreppi og Langanesbyggð.  Starfsleyfið gildir til næstu 16 ára.

Tillögur að starfsleyfum fyrir urðunarstaði Norðurþings á Kópaskeri og í Laugardal voru auglýstar á tímabilinu 14. október – 9. desember 2015 en Umhverfisstofnun bárust engar athugasemdir við þær.  Samkvæmt starfsleyfinu á Kópaskeri er heimilt að taka á móti og urða allt að 500 tonn af úrgangi á ári, frá Kópaskeri, Raufarhöfn og nálægu dreifbýli, og til að taka á móti allt að 100 tonnum af brotamálmum á ári, til flokkunar, rúmmálsminnkunar, pökkunar og geymslu.  Starfsleyfið í Laugardal veitir heimild til að taka á móti og urða allt að 500 tonn á ári af óvirkum úrgangi og til að taka á móti og jarðgera úr allt að 200 tonnum á ári af garðaúrgangi.  Bæði þessi starfsleyfi gilda til næstu 16 ára.

Eftirlit með urðunarstöðunum er í höndum Umhverfisstofnunar.

Tengd skjöl