Stök frétt

Í nýlegri könnun Umhverfisstofnunar kemur í ljós að aðeins 6% aðspurðra þekktu ný hættumerki á neytendavörum. Hins vegar þekkja rúmlega 91% eldri merkingar sem brátt heyra sögunni til og eiga að vera að fullu horfnar af vörum í hillum verslana sumarið 2017.  Konur fara frekar en karlar eftir leiðbeiningum um notkun á vörum sem bera hættumerkingar og eru ólíklegri til að kaupa slíkar vörur.

Á undanförnum árum hafa verið innleiddar nýjar merkingar á hættulegar efnavörur, þar með taldar ýmsar neytendavörur s.s. hreinsiefni, stíflueyðar og duft fyrir uppvélavélar. Um er að ræða alþjóðlegt merkjakerfi, en eldri merkingar voru einungis notaðar í Evrópu. Mikilvægt er að notendur hafi vitneskju um áhættu sem getur stafað af efnavörum, lesi leiðbeiningar og umgangist vörurnar á réttan hátt. Umhverfisstofnun lék forvitni á að vita hver væri staða þekkingar meðal almennings á þessu sviði og lét af þeim sökum gera stutta könnun á því.

Þrjár spurningar sem tengjast hættumerktum efnavörum voru lagðar fyrir í Þjóðargátt Maskínu í september s.l. og bárust svör frá 811 manns. Umhverfisstofnun mun á næstu misserum leggja áherslu á að kynna nýju hættumerkin og verður samskonar könnun gerð að 2 árum liðnum til þess að meta árangur af kynningarstarfinu.

Fyrst var spurt hvort fólk þekkti hættumerki sem notuð eru til þess að gefa til kynna hættueiginleika efnavara og þar kom í ljós að 6% aðspurðra þekktu merkin sem ber að nota samkvæmt nýju löggjöfinni og hafa reyndar verið í notkun um nokkurn tíma. Ríflega 91% svarenda bentu hins vegar á eldri merki sem hafa verið notuð um árabil en munu brátt heyra sögunni til og mega ekki finnast á vörum í hillum verslana lengur en til 1. júní 2017.

Þá var spurt hvort fólk væri líklegra eða ólíklegra til að kaupa efnavöru ef hún bæri hættumerkingar og 47% töldu sig vera miklu eða nokkru ólíklegri til þess. Karlar sögðust líklegri til að kaupa hættumerktar vörur en konur.

Loks var spurt hvort fólk færi eftir notkunarleiðbeiningum sem tilgreindar eru á umbúðum hættumerktra efnavara og um 47% svarenda sagðist stundum gera það, en 48% oftast eða alltaf. Konur fara oftar eftir notkunarleiðbeiningum en karlar. Þá eru þeir sem alltaf fylgja notkunarleiðbeiningum ólíklegri til þess að kaupa hættumerktar efnavörur.

Samantektarskýrsla Maskínu.

Hægt er að fræðast um merkingar á hættulegum efnum á vef Umhverfisstofnunar á síðunni „Grænn lífsstíll“.