Stök frétt

Í lok september s.l. lét Umhverfisstofnun gera könnun meðal fólks á aldrinum 18- 75 ára á viðhorfi til matarsóunar. Könnunin var framkvæmd af Maskínu ehf. og er hún eitt af fjórum verkefnum sem umhverfis– og auðlindaráðuneytið lagði sérstakt fjármagn til fyrr á þessu ári. Spurningarnar í könnuninni voru fimm en helstu niðurstöður hennar voru að 75% aðspurðra sögðust reyna að lágmarka magn matar og drykkjar sem hent væri af heimilinu. Þeir sem eldri eru virðast frekar reyna að lágmarka matarsóun en þeir sem yngri eru og þeir henda sjaldnar mat. Þegar spurt var um ástæður þess að fólk hendi mat svöruðu flestir því að hann væri útrunninn (29%) eða að gæði hans væru ónóg (25%).

 


 

Í spurningu 4 var spurt um hvað það væri helst sem sem hindrar fólk í að minnka matarsóun. Þá svöruðu 27% að það væri erfitt að áætla nákvæmlega hversu mikið þurfi að kaupa eða elda, 21% sagðist gleyma hvað það ætti heima og gleyma afgöngum og 13% sögðust ekki vita hvernig þau ættu að minnka matarsóun.

 

Einnig var spurt hvað það er sem hvetur svarendur til að minnka matarsóun en þar sögðust 22% vera mótfallin sóun, 20% sögðu það spara peninga og 18% sögðu að þau myndu kaupa mat með afslætti ef hann væri við það að renna út.

 

Könnunin er sú fyrsta sem Umhverfisstofnun lætur gera um viðhorf landsmanna til matarsóunar en ætlunin er að framkvæma sömu könnun að nokkrum árum liðnum, til að fylgjast með þróun þessara mála og árangri í baráttunni gegn matarsóun. Í könnuninni var lögð áhersla á að finna út hvers vegna fólk hendir mat og gefur könnunin okkur vísbendingar um hvaða þætti þarf að leggja áherslu á til að hjálpa fólki að minnka matarsóun. Niðurstöður hennar benda til þess að kynna þurfi vel fyrir fólki muninn á „best fyrir“ og „síðasti neysludagur“ dagsetningunum og hvetja fólk til að skipuleggja sig betur þegar kemur að matvælum og matargerð, t.d. með því að sýna hvernig hægt erað nota afganga á frumlegan hátt, skipuleggja innkaup eða að útbúa minni mat.

Tengd skjöl