Stök frétt

Þrátt fyrir lækkandi sól eru vélarnar látnar púla í Mývatnssveit þessa dagana. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og umhverfis- og auðlindaráðuneyti veittu fjármunum til uppbyggingar innviða á friðlýstum svæðum í Mývatnssveit á árinu og ganga framkvæmdir vel.

Framkvæmdum við göngustíg og útsýnispall á Hræðuhver við Skútustaðagíga er nú að ljúka en þar var útsýnispallur og stígur að honum steyptur og er ætlunin að geta boðið upp á heilsársviðkomustað fyrir ferðamenn við gíginn, en hann er fremsti gervigígurinn á svæðinu sem kennt er við Skútustaðagíga.

Við afleggjara að bænum Kálfaströnd, við upphaf gönguleiðarinnar að Klösum, standa yfir framkvæmdir við bílastæði. Aukinn aðsókn ferðamanna að staðnum kallar á uppbyggingu innviða en fjölgun ferðamanna má að hluta til tengja við tökur Games of Thrones sem fóru fram við Klasa fyrir fáeinum árum. Bílastæðið verður malbikað í vikunni og er gert ráð fyrir að þar geti fólksbílar, jafnt sem rútur athafnað sig án vandræða. Áfram verður stefnt að hóflegri uppbyggingu gönguleiðarinnar að Klösum á næstu árum til verndar viðkvæmu svæðinu, sem er við bakka Mývatns.

Steypt á Hræðuhver.
Útsýnispallur á Hræðuhver tekur á sig mynd.
Framkvæmdir við Kálfaströnd, jarðvegsskipti fyrir malbikun.
Bílastæðið verður malbikað innan skamms.