Stök frétt

Umhverfisstofnun fór nýverið í eftirlit hjá fyrirtækjum sem setja plöntuverndarvörur á markað og skoðaði hvort vörur sem þar fundust hefðu tilskilin leyfi til að mega vera á markaði, hvort merkingar á plöntuverndarvörum væru samkvæmt reglum og hvort öryggisblöð á íslensku væru aðgengileg fyrir þá sem nota vörurnar í atvinnuskyni.

Í eftirlitinu sem fór fram dagana 11. og 22. maí s.l. voru skoðaðar alls 60 plöntuverndarvörur. Engin frávik komu fram í 11 af þeim 13 fyrirtækjum sem voru í úrtaki í verkefninu. Hjá 2 fyrirtækjum fundust 33 frávik vegna 28 vara og voru þau fólgin í því að 2 vörur voru ekki með leyfi til að vera á markaði, gera þurfti breytingu á skráningu fyrir 1 vöru, merkingar á 16 vörum uppfylltu ekki kröfur og öryggisblöð á íslensku voru ekki til reiðu fyrir 14 vörur, vegna þeirra sem nota vörurnar í atvinnuskyni. Vörur sem seldar eru í smásölu og almenningur má nota reyndust allar fullnægja kröfum um merkingar og var því ekki munur hvað þetta varðar í verslunum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.

Eftirlitsþegum voru sendar eftirlitsskýrslur ásamt bréfi í byrjun  júlí 2015 og þeim fyrirtækjum, þar sem ekki komu fram frávik, var jafnframt tilkynnt um málslok. Þeim 2 fyrirtækjum, þar sem frávik komu fram, var veittur frestur til 31. ágúst 2015 til að gera athugasemdir við eftirlitið og bregðast við frávikum.

Bæði fyrirtækin brugðust við frávikum innan tilskilins frests með því að lagfæra merkingar, uppfæra öryggisblöð á íslensku, senda vörur án markaðsleyfis í förgun og óska eftir að vöru væri bætt inn á lista yfir tímabundnar skráningar. Hér má nálgast samantektarskýrslu um eftirlitsverkefnið.

Plöntuverndarvörur eru skordýra-, sveppa- og illgresiseyðar sem notaðir eru í landbúnaði og garðyrkju til þess að verja uppskeru nytjaplantna fyrir skaðvöldum. Notkun þessara vara getur verið hættuleg heilsu manna og umhverfinu sé ekki rétt með þær farið.

Á tímabilinu 2011-2015 voru 72 mismunandi plöntuverndarvörur fluttar til landsins. Með því að skoða 60 vörur í þessu eftirlitsverkefni náðist því til ríflega 80% af þeim plöntuverndarvörum sem eru á markaði hér á landi.