Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt í samstarfi við Samtök iðnaðarins vel heppnaðan kynningarfund um öryggisblöð þann 22. september. Öryggisblöð eru mikilvægur þáttur í vinnuvernd en þau innihalda meðal annars upplýsingar um örugga meðhöndlun og notkun efna og efnablandna. Reglur um samantekt öryggisblaða hafa tekið breytingum undanfarin ár og mikilvægt er að atvinnulífið fylgist með og kynni sér þær vel.

Fundarstjóri var Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins. Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, teymisstjóri efnateymis, hélt erindi um kröfur fyrir samantekt öryggisblaða og Gunnþóra Elín Erlingsdóttir, lögfræðingur, kynnti eftirlit og viðbrögð við frávikum.

Mæting á kynningarfundinn var með besta móti en um 60 manns sóttu hann, ýmist í húsakynnum Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut eða í gegnum fjarfundabúnað. Góðar umræður sköpuðust á fundinum og þátttakendur lögðu fram fjölmargar gagnlegar spurningar og athugasemdir. Ánægjulegt var að sjá að aðilar innan atvinnulífsins eru greinilega áhugasamir um öryggisblöð og tilbúnir að sækja sér þekkingu um málefnið.

Nánari upplýsingar um öryggisblöð má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.