Stök frétt

Starfsmenn Umhverfisstofnunar standa sig vel í að nýta sér vistvænar samgöngur en 30 starfsmenn hafa gert heilsárssamning við stofnunina um að nota strætó eða ganga og hjóla til vinnu þetta árið. Alls eru starfsmenn 69 talsins svo gerir þetta 43% starfsmanna. Í samgöngusamningum felst að starfsmenn gera samning við stofnunina um að nota vistvænni samgöngumáta í minnst 60% vinnudaga og í staðinn kemur stofnunin til móts við starfsmenn með samgöngustyrkjum.

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri segir að samgöngusamningar séu „samfélagslegt verkefni þá bæði hugsað til að bæta heilsu og starfsumhverfi starfsmanna og svo viljum við auðvitað alltaf minnka umhverfisáhrif vegna starfseminnar eins og hægt er“. Til að koma til móts við þarfir sem flestra starfsmanna býður stofnunin einnig upp á sumarsamninga fyrir þá sem vilja ganga eða hjóla til og frá vinnu en 12 starfsmenn nýttu sér það í sumar.

Einnig hvetur stofnunin starfsmenn til að hjóla og nýta sér vistvænar samgöngur á vinnutíma og á fundi og geta starfsmenn því fengið lánuð hjól frá stofnuninni og strætómiða þurfi það að skreppa út á fundi eða sinna öðrum vinnutengdum erindum.