Stök frétt

Umhverfisstofnun boðar til kynningarfundar í samstarfi við Samtök iðnaðarins þar sem farið verður yfir helstu kröfur sem gerðar eru við samantekt öryggisblaða, hvað íslenskir birgjar þurfa helst að hafa í huga og hvernig eftirliti Umhverfisstofnunar er háttað. Lögð er áhersla á góð ráð til að uppfylla settar reglur.

Öryggisblöð eru mikilvægur þáttur í vinnuvernd en þau innihalda meðal annars upplýsingar um örugga meðhöndlun og notkun efna og efnablandna. Reglur um samantekt öryggisblaða hafa tekið breytingum undanfarin ár og er mikilvægt að atvinnulífið fylgist með og kynni sér þær vel.

Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut 24, 5. hæð, þann 22. september kl. 10.00. Boðið verður upp á að taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.
Dagskrá:
  • Kröfur um samantekt öryggisblaða skv. REACH, Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, teymisstjóri
  • Eftirlit og viðbrögð við frávikum, Gunnþóra Elín Erlingsdóttir, lögfræðingur

Fundarstjóri er Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að senda tölvupóst á ust@ust.is fyrir lok dags þann 18. september og látið koma fram hvort viðkomandi hyggist sitja fundinn sjálfan eða taka þátt í gegnum fjarfund.