Stök frétt

Umhverfisstofnun tók við markaðseftirliti með efnum og efnablöndum í kjölfar gildistöku nýrra efnalaga og setti strax í forgang að skoða hvort kaupendur væru með notendaleyfi eða önnur tilskilin leyfi til kaupa á plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum til notkunar í atvinnuskyni. Í eftirliti með sölu þessara efna kom m.a. í ljós að ríflega helmingur kaupenda voru ekki handhafar af gildu notendaleyfi.

Umhverfisstofnun lítur niðurstöðu eftirlitsins alvarlegum augum og hefur brugðist við með því að upplýsa bæði fyrirtækin sem voru í úrtaki og alla einstaklinga og fyrirtæki sem festu kaup á þessum vörum á árinu 2014 um þær skyldur sem fylgja markaðssetningu á plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum. Þar má nefna að eingöngu er heimilt að afhenda slíkar vörur ef að kaupandinn getur framvísað gildu notendaleyfi, og var upplýst í bréfinu hvaða kröfur eru gerðar til handhafa notendaleyfa og hvernig sótt sé um slíkt leyfi.

Ekki þarf sérstakt leyfi til að selja plöntuverndarvörur og útrýmingarefni til notkunar í atvinnuskyni, en skylda er að tilkynna um markaðssetninguna til Umhverfisstofnunar. Þá þarf fyrirtækið að vera með í sinni þjónustu ábyrgðarmann, sem hefur tilskylda menntun, og skal hann vera til staðar þegar salan fer fram. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar uppfylltu öll fyrirtækin sem voru í úrtaki í eftirlitinu þessa kröfur.

Þeir einir geta sótt um notendaleyfi hjá Umhverfisstofnun sem hafa lokið námi eða námskeiði sem stofnunin viðurkennir. Forsenda þess að einstaklingar, sem ekki hafa fullnægjandi menntun, geti sótt um notendaleyfi er að boðið sé upp á námskeið um meðferð varnarefna. Umhverfisstofnun hefur rætt við forsvarsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands sem heldur slík námskeið og er næsta námskeið fyrirhugað í lok þessa árs.

Umhverfisstofnun mun fylgja því fast eftir að farið sé að lögum við markaðssetningu á þeim vörum sem hér um ræðir og hyggur á samskonar eftirlit á ný þegar öllum þeim sem um ræðir hefur gefist kostur á því að gera ráðstafanir til að endurnýja eða sækja um notendaleyfi.

Eftir gildistöku efnalaga árið 2013 hefur Umhverfisstofnun mun skýrari heimildir en áður til þess að fylgja því eftir að farið sér að lögum og reglum varðandi markaðssetningu á efnavörum og hefur stofnunin staðið að fjölmörgum eftirlitsverkefnum sem þegar hafa skilað sér í umbótum í þessum málaflokki.