Stök frétt

Höfundur myndar: Samgöngustofa

Höfundur myndar: Samgöngustofa

Umhverfisstofnun, Landhelgisgæsla Íslands og Samgöngustofa hafa endurskoðað aðgerðaáætlun stofnananna um viðbrögð við bráðamengun utan hafna og notkun skipaafdrepa. Áætlunin fjallar um hvernig bregðast á við þegar óhöpp verða á sjó er varða skip í efnahagslögsögu Íslands sem ógna siglingaöryggi eða hætta er á að valdi umhverfisstjóni.  Áætlunin er hugsuð sem sameiginlegt stjórntæki Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslu Íslands og Samgöngustofu og er ætlað að tryggja fumlaust verklag og framkvæmd viðbragða vegna bráðamengunar, þegar hætta er talin á bráðamengun sem og rétta framkvæmd við notkun skipaafdrepa, sem útnefnd eru af Samgöngustofu. Skipaafdrep eru annars vegar innan hafna (neyðarhöfn) og hins vegar skjólgóð svæði sem eru tilgreind utan hafna.

Við endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar var meðal annars annars litið til reynslunnar af samstarfi aðila og viðbragða vegna strands skipanna Akrafells og Green Freezer árið 2014.

Endurskoðuð aðgerðaáætlun var undirrituð af Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslu Íslands, Þórólfi Árnasyni, forstjóra Samgöngustofu og Kristínu Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar á árlegum samráðsfundi stofnananna þann 3. september síðastliðinn.