Stök frétt

Höfundur myndar: Iain Sarjeant

Umhverfisstofnun lauk nýverið eftirlitsverkefni þar sem kallað var eftir gögnum um sölu ársins 2014 á tilteknum varnarefnum, þ.e. plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum sem einungis eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni.  Í úrtaki voru 7 fyrirtæki sem setja þessar vörur á markað hér á landi.

Alls nam salan á þeim vörum sem féllu undir eftirlitið 10.475 kg á árinu 2014 og samsvarar það 734 kg af virku efni. Seldar voru 36 plöntuverndarvörur sem innihéldu 38 mismundandi virk efni og 6 útrýmingarefni, allt nagdýraeyðar, sem innihéldu 2 virk efni.

Plöntuverndarvörur og útrýmingarefni innihalda efni sem geta skaðað heilsu manna og umhverfið og því er krafist notendaleyfis til þess að mega kaupa og nota þær vörur sem hér um ræðir. Handhafi notendaleyfis skal hafa lokið námi eða námskeiði um meðferð varnarefna og staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans.

Samkvæmt efnalögum er sú skylda lögð á herðar fyrirtækja, sem setja á markað plöntuverndarvörur og útrýmingarefni sem einungis eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni, að ganga úr skugga um að kaupendur þeirra séu með notendaleyfi eða sambærileg eldri leyfi í gildi. Á þessu reyndist vera verulegur misbrestur í viðskiptum með umræddar vörur á árinu 2014, þannig reyndust einungis 84 einstaklingar af alls 202 kaupendum vera með leyfi í gildi þegar kaupin áttu sér stað, 31 var með útrunnið leyfi og 87 höfðu aldrei verið handhafar slíkra leyfa.

Af þessu er ljóst, að þeir sem hyggjast kaupa og nota plöntuverndarvörur og útrýmingarefni, sem einungis eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni, þurfa að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi notendaleyfi vilji þeir áfram hafa aðgang að þessum vörum.

Samantektarskýrsla um eftirlitsverkefnið