Stök frétt

Nú þegar veiðar á hreintörfum hafa staðið í 28 daga og veiðar á kúm í 11 daga er búið að veiða  174 tarfa og 57 kýr. Veiðtímabil tarfa er 63 dagar og heðbundið veiðtímabil kúa 50 dagar. Við veiðitímabil kúa bætast síðan 30 dagar í nóvember á svæðum 7, 8 og 9 því heimit er að fella samtals 138 kýr í nóvember á þeim svæðum. Þeim leyfum er úthlutað á þann tíma. 

Hreindýraveiðkvóti þessa árs er sá stærsti frá upphafi,  1412 dýr, 630 tarfar og 782 kýr. Veiðar hafa farið nokkuð rólaga af stað eins og reyndar undanfarin ár, búið er að veiða um 30 dýrum fleira en á sama tíma í fyrra. 

Margir virðast bíða með það að halda til veiða fyrr en eftir 20. ágúst og hefur það stundum verið tengt við það að menn noti sömu veiðitúrana til að veiða gæsir. Það er líka áberandi að stór hluti veiðimanna kemur til veiða um helgar og er þá mun meira álag  á veiðislóð. Einhverjir bíða með veiðar þangað til seint á tímanum í þeirri von að ná þyngri dýrum. Þyngdaraukning hreindýra er að mestu í formi fitu þegar komið er lengra fram á tímabilið, þessari fitu er síðan hent við úrbeiningu. Hafa má í  huga að meiri örtröð er  seinast á veiðitímabilinu og erfiðara getur verið að velja sér góð dýr þá en þegar minna er um að vera.  Umhverfisstofnun vill hvetja veiðimenn að draga ekki fram á seinustu vikurnar að fara til veiða.  Veður eru oft erfiðara á veiðislóð þegar komið er fram í september og þess vegna er mikilvægt að nýta vel alla þá daga þegar veður til veiða er gott.