Stök frétt

Umhverfisstofnun í samstarfi við Vesturbyggð, Náttúrustofu Vestfjarða og landeigendur á Rauðasandi stóðu að hreinsun strandlengjunnar á Rauðasandi laugardaginn 4. júlí síðastliðinn. Verkefnið var auglýst og óskað eftir sjálfboðaliðum af svæðinu til að aðstoða við hreinsunina. Alls tóku 20 manns þátt í verkefninu, þar af 5 sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar.
 
Tekinn var fyrir austurhluti strandlengjunnar á Rauðasandi við bæinn Melanes, þ.e. frá Sjöundá að Hafnarvogi, samtals um 4 km. Í heildina var safnað saman um 30 m3 af rusli. Mest af ruslinu var tengt sjávarútvegi, s.s. fiskinet, netakúlur, bobbingar og baujur. Þar að auki var mikið af einnota drykkjarumbúðum úr plasti og gleri.
 
Þetta verkefni er unnið í tengslum við OSPAR-samninginn sem Ísland er aðili að. Samningurinn gengur út á verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, meðal annars með því að draga úr mengun frá landi og uppsprettum á hafi. Á hverju ári berst mikið af rusli í hafið og safnast saman á hafsbotni, úti á opnu hafi eða rekur upp í fjörur. Til að leysa þetta stóra vandamál þarf mjög víðtækt samstarf. Verkefnið gengur m.a. út á að skrá hverskonar rusl við erum að hreinsa úr fjörunum og finna út hvaðan það kemur svo hægt sé að efla forvarnarstarf og koma í veg fyrir að rusl berist í sjóinn.

Árangurinn í ár var framar vonum og á næsta ári er stefnt að því að taka enn stærra svæði fyrir og halda áfram þar sem frá var horfið.