Stök frétt

Mikilvægt er að tryggja að sólarvarnir og aðrar snyrtivörur á markaði séu öruggar, að þær innihaldi eingöngu leyfileg efni og umbúðir séu rétt merktar. Einkum er þetta mikilvægt í ljósi þess hve breiður aldurshópur notar sólarvarnir, ekki síst börnin. Umhverfisstofnun kannaði merkingar og innihald sólarvarna og tengdra vara á markaði síðast liðið vor. Alls 12 birgjar og 8 verslanir á 5 stöðum á landinu voru heimsóttir.

Ákveðnar kröfur gilda um merkingar umbúða og innihaldsefni slíkra vara samkvæmt reglugerð um snyrtivörur. Dæmi er að fimm gerðir parabena voru bannaðar í snyrtivörum árið 2014 og má ekki selja vörur sem innihalda þau frá og með 30. júlí 2015. Um er að ræða benzylparaben, isobutylparaben, isopropylparaben, pentylparaben og phenylparaben.

Með þessu verkefni sinnir stofnunin einu af hlutverki sínu samkvæmt efnalögum sem er að hafa eftirlit með markaðssetningu efna og efnablandna sem falla undir lögin.

Niðurstaða verkefnisins sýnir að sólarvörur sem voru í úrtaki uppfylla í nær öllum tilfellum kröfur reglugerðar. Birgjar eru nær undantekningarlaust vel upplýstir um þær kröfur sem gilda og leggja áherslu á að flytja inn vandaðar og öruggar vörur. Sólarvörur á markaði hér á landi eru nær allar fluttar inn frá Evrópu. Þau frávik sem fundust eiga við um vörur sem fluttar eru inn frá landi utan Evrópska efnahagssvæðið. Á umbúðir þeirra vantaði upplýsingar um ábyrgðaraðila og voru þær ekki skráðar í snyrtivöruvefgátt Evrópusambandsins. Unnið er að úrbótum hjá fyrirtækinu.

Samantektarskýrsla um eftirlit með sólarvörnum vorið 2015