Stök frétt

Þriðjudaginn 30. júní 2015 kl. 13:00 munu fulltrúar Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar undirrita verndar- og stjórnunaráætlanir og umsjónarsamninga fyrir friðlýstu svæðin Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás í Reykjavík. Athöfnin fer fram við Fossvogsbakka, við vesturenda friðlýsta svæðisins næst Nauthólsvík.

Verndar- og stjórnunaráætlanir fyrirfriðlýst svæði eru stjórntæki þar sem lögð er fram stefna um verndun svæðanna og hvernig viðhalda skuli verndargildi þeirra. Áætlanirnar gilda til 10 ára, en með þeim fylgja aðgerðaáætlanir þar sem fram kemur til hvaða aðgerða áætlað er að grípa til í því skyni að fylgja eftir þeirri stefnu sem fram kemur í verndar- og stjórnunaráætlunum.

Með umsjónarsamningum er Reykjavíkurborg falin dagleg umsjón og rekstur svæðanna.

Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hin svokölluðu Fossvogslög sem eru fágætar jarðmyndanir í jarðsögu Reykjavíkur og landsins alls og lýsa ástandi í lok ísaldar fyrir 11.000 árum. Fossvogslögin eru með þekktari og best varðveittustu jökulbergs- og sjávarsetlögum frá lokum ísaldar á Íslandi. Þau eru minnisvarði um loftslagsbreytingar, landslagsmyndun, sjávarstöðubreytingar og lífríki á grunnsævi. Einstakt er að jarðminjar sem þessar séu jafn aðgengilegar og sýnilegar og Fossvogslögin og hafa þau því mikilvægt rannsóknar og fræðslugildi.

Háubakkar, innst í Elliðavogi, voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Markmið friðlýsingarinnar er m.a. að varðveita jarðmyndanir svæðisins í núverandi mynd, en á svæðinu er að finna þykk setlög sem bera merki um áhrif loftslagsbreytinga á ísöld. Í setlögunum er m.a. að finna þykkt surtarbrandslag. Setlögin í Háubökkum tilheyra svokölluðum Elliðavogslögum sem mynduðust að öllum líkindum á löngu tímabili sem hófst fyrir meira en 300 þúsund árum og varði í a.m.k. 100 þúsund ár. Vísbendingar eru um að sjávarstaða hafi verið breytileg á þeim tíma er setlögin mynduðust þar sem bæði er um að ræða sjávar- og þurrlendisset.

Laugarás, efst á Laugarásholti, var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982. Ástæða friðlýsingarinnar var vilji til að halda opnu svæði þar sem unnt er að skoða jökulrispað berg, en á svæðinu eru grágrýtisklappir sem eru í senn jökulsorfnar og bera ummerki um hæstu sjávarstöðu við lok ísaldar í Reykjavík. Töluverðar breytingar hafa orðið á svæðinu undanfarna áratugi, einkum m.t.t. gróðurfars, en sá holtagróður sem einkenndi svæðið hefur að mestu vikið fyrir lúpínu, trjágróðri og grasi.